Enski boltinn

„Geta unnið Meistara­deildina án Mbappe“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sagan endalausa um Kylian Mbappe heldur áfram.
Sagan endalausa um Kylian Mbappe heldur áfram. Vísir/Getty

Fyrrum framkvæmdastjóri PSG segir að það sé kominn tími til að Kylian Mbappe yfirgefi félagið. Félagið telur að franska stórstjarnan sé búinn að ákveða að yfirgefa félagið frítt næsta sumar.

Framtíð Kylian Mbappe er í mikilli óvissu. Félag hans PSG vill að hann skrifi undir nýjan samning en núverandi samningur hans rennur út næsta sumar og getur hann þá yfirgefið frönsku meistarana frítt, 

Forráðamenn PSG vilja að sjálfsögðu ekki að það gerist og þar sem Mbappe virðist engan áhuga hafa á því að framlengja samning sinn ætla þeir sér að selja hann strax í sumar. 

Í síðustu viku var greint frá því að æðstu menn PSG haldi að Mbappe sé nú þegar búinn að ákveða að ganga til liðs við Real Madrid næsta sumar en auk Real Madrid hefur hann verið orðaður við bæði Liverpool og Arsenal en ólíklegt verður að teljast að þau félög hafi efni á hinum 24 ára gamla Mbappe.

Hinn brasilíski Leonardo, fyrrum framkvæmdastjóri PSG, tjáði sig um málið í viðtali við L´Equipe.

„PSG var til áður en Mbappe kom til sögunnar og mun gera það eftir að hann fer. Fimm félög hafa unnið Meistaradeildina á síðustu sex árum og ekkert þeirra var með Mbappe í sínum röðum. Það er algjörlega mögulegt að vinna keppnina án hans,“ sagði Leonardo sem hætti sem framkvæmdastjóri frönsku meistaranna árin 2011-2013.

„Með hegðun sinni síðustu tvö árin hefur Mbappe sýnt að hann hefur ekki getuna til að leiða lið. Hann er frábær leikmaður, ekki leiðtogi. Hann er frábær markaskorari, hann býr ekki til mörk. Það er erfitt að byggja lið í kringum hann. PSG vegna held ég að það sé kominn tími á að hann fari, sama hvað.“

Annars er það að frétta af Mbappe að hann fór í ferðalag til Kamerún í síðustu viku þar sem hann tók þátt í góðgerðastarfi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×