Innlent

Tjarnar­bíó bjargað

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sara Martí er eðli málsins samkvæmt sátt við að lausn hafi fundist á málum Tjarnarbíó.
Sara Martí er eðli málsins samkvæmt sátt við að lausn hafi fundist á málum Tjarnarbíó.

Ríkið mun í sam­starfi við Reykja­víkur­borg leita leiða til að tryggja rekstur Tjarnarbíós og verður leikhúsinu því ekki lokað í haust. Leik­hús­stýra segist anda léttar.

„Okkur hefur ekki verið sagt ná­kvæm­lega hvernig þau ætla að út­lista þetta en okkur hefur verið lofað því að það muni ekki koma til þess að við munum þurfa að loka í haust eins og við gerðum áður ráð fyrir,“ segir Sara Martí Guð­munds­dóttir, leik­hús­stýra Tjarnar­bíós í sam­tali við Vísi.

Áður hefur komið fram að þrátt fyrir met­sölu­ár og mikla vel­gengni dugi nú­verandi styrkir ekki fyrir rekstri leik­hússins. Gerði Sara ráð fyrir því að leik­húsið myndi þurfa að loka dyrum sínum í haust en nú hefur lending náðst í málinu.

Í til­kynningu frá leik­húsinu segir að Menningar-og við­skipta­ráðu­neytið hafi átt í sam­tali við Reykja­víkur­borg um að finna lausn á bráða­vanda Tjarnar­bíós og um leið að horfa á sam­eigin­lega lausn til fram­tíðar.

Sara Martí segir að ætlunin sé að ríkið, borgin og að­stand­endur leik­hússins fari í alls­herjar þar­fa­greiningu á rekstri sjálf­stæðra sviðs­lista hér á landi í kjöl­farið. Hún segir eðli málsins sam­kvæmt vera létt vegna niður­stöðunnar.

„Það var mjög erfitt að vita ekki fyrir sumar­frí hvort við værum að fara að vera með vinnu aftur í septem­ber. Mér er geysi­lega létt að vita af því bæði fyrir okkur starfs­fólkið en líka sjálf­stæðu leik­listar­senuna í heild.“

Hún segir næsta leik­ár vera pakkað og skipu­lagt í þaula. Gleði­tíðindi séu fólgin í því að sjálf­stætt starfandi lista­fólk fái á­fram sinn vett­vang í Tjarnar­bíó.

„Það er ó­trú­lega mikil­vægt því við getum ekki fram­kvæmt listina okkar nema vera með svið. Það er gleði­legt að þurfa ekki að velta rekstrinum fyrir okkur ár eftir ár líkt og ríki og borg leggja nú upp með.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×