Sport

Simone Biles snýr aftur og keppir í fyrsta sinn síðan á ÓL í Tokýó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simone Biles hætti óvænt keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó en snýr nú aftur tveimur árum síðar.
Simone Biles hætti óvænt keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó en snýr nú aftur tveimur árum síðar. AP/Rebecca Blackwell

Bandaríska fimleikakonan Simone Biles hefur nú tilkynnt að hún muni snúa aftur inn á fimleikagólfið á U.S. Classic mótinu í Chicago í byrjun ágúst.

Þetta verður hennar fyrsta keppni síðan á Ólympíuleikunum í Tókýó fyrir tveimur árum. Biles mun taka þátt í þessu eins dags móti sem fer fram 5. ágúst næstkomandi.

Biles er sjöfaldur verðlaunahafi á Ólympíuleikunum og Ólympíumeistari frá 2016. Hún var á góðri leið með að verða besta fimleikakona sögunnar þegar hún dró sig óvænt úr keppni á leikunum í Tókýó þegar flestir spáðu henni fjölda gullverðlauna.

Biles sagði ástæðurnar vera andlegar og hún vakti um leið mikla athygli að glímu íþróttafólks við andleg veikindi. Hún hefur haldið uppi þeirri baráttu síðan.

Pressan var svakaleg á Biles á þessum leikum enda líklegast stærsta stjarna Ólympíuóðra Bandaríkjamanna á ÓL í Tókýó.

Biles glímdi við óöryggi í loftinu í stökkum sínum, fékk svokallaða „twisties“ en fimleikafólk missir þá tilfinningu fyrir stöðu sinni þegar þau eru í stökkum sínum.

Biles tók sér tveggja ára frí frá keppni og margir héldu eflaust að hún væri hætt. Á þessum tíma hefur hún meðal annars gift stig NFL-leikmanninum Jonathan Owens.

Biles er nú 26 ára gömul en þessi endurkoma hennar ýtir undir möguleikann á því að hún keppi á Ólympíuleikunum í París á næsta ári.

Hún vann bronsverðlaun á jafnvægislá á ÓL í Tókýó og jafnaði þar bandaríska metið yfir flest verðlaun hjá fimleikakonu á leikunum. Shannon Miller á metið með henni.

Meðal mótherja Biles á mótinu verður Sunisa Lee sem vann gullverðlaun í fjölþrautinni á ÓL í Tókýó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×