Erlent

Shoigu sagður hafa heim­sótt her­sveitir Rússa í Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stilla úr myndskeiði sem er sagt sýna Shoigu á leið að heimsækja hersveitir Rússa í Úkraínu.
Stilla úr myndskeiði sem er sagt sýna Shoigu á leið að heimsækja hersveitir Rússa í Úkraínu. AP/Varnarmálaráðuneyti Rússlands

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, heimsótti hersveitir landsins í Úkraínu í gær en þetta er í fyrsta sinn sem sést til varnarmálaráðherrans eftir valdaránstilraun Yevgeny Prigozhin og Wagner-liða um helgina.

Þetta fullyrðir fréttastofan RIA.

Shoigu hefur ekki tjáð sig um atburði helgarinnar en Prigozhin var harðorður í garð varnarmálaráðherrans og sakaði hann meðal annars um að hafa blekkt Vladimir Pútín Rússlandsforseta og rússneskan almenning til að styðja við tilhæfulausa innrás inn í Úkraínu.

Í kjölfar samkomulags Alexander Lúkasjenkó og Prigozhin um að binda enda á uppreisn Wagner hafa menn spurt sig að því hvort Shoigu muni halda embættinu. Enn sem komið er bendir ekkert til þess að ásakanir Prigozhin hafi breytt afstöðu Pútín til ráðherrans.

Sergei Sobyanin, borgarstjóri Moskvu, hefur lýst því yfir að sá viðbúnaður sem gripið var til vegna valdaránstilraunarinnar og sóknar Wagner að höfuðborginni sé ekki lengur í gildi. Í tilkynningu á Telegram þakkaði hann íbúum skilning þeirra og yfirvegun.

Bresk stjórnvöld greindu frá því í morgun að 17 þúsund Úkraínumenn hefðu fengið þjálfun hjá Bretum og öðrum bandamönnum Úkraínu frá því að innrásin hófst.

Ekkert bendir til annars en að Rússar hyggist berjast áfram í Úkraínu og óvíst hvaða áhrif ef einhver atburðir helgarinnar munu hafa á gang mála. Fastlega er búist við að hluti Wagner-liða muni snúa aftur á vígvöllinn til að berjast fyrir Rússland.


Tengdar fréttir

Wagner-liðar fá sakar­upp­gjöf og Prigoz­hin fer til Bela­rús

Yevgeny Prigozhin, leiðtogi Wagner málaliðahópsins, hefur lýst því yfir að uppreisninni sé lokið. Þetta kemur fram í ávarpi sem hann sendi frá sér nú síðdegis. Hann segist hafa náð samkomulagi við Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta Rússlands, um að binda enda á uppreisnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×