Íslenski boltinn

Blikar mæta írsku meisturunum ef allt gengur upp

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Eyjólfsson og Jason Daði Svanþórsson eru lykilmenn í liði Breiðabliks sem ætlar sér að ná árangri í Evrópu í sumar.
Gísli Eyjólfsson og Jason Daði Svanþórsson eru lykilmenn í liði Breiðabliks sem ætlar sér að ná árangri í Evrópu í sumar. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslandsmeistarar Breiðabliks mæta írsku meisturunum úr Shamrock Rovers í 1. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu, takist Blikum að komast áfram úr fjögurra liða forkeppninni sem þeir taka þátt í.

Breiðablik spilar á heimavelli í forkeppninni, þar sem fjögur lið frá lægst skrifuðu deildum Evrópu taka þátt. Blikar mæta Tre Penne frá San Marínó í undnaúrslitum og sigurliðið mætir svo sigurliðinu úr leik Atlétic d'Escaldes frá Andorra og Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi.

Leikirnir fara fram á Kópavogsvelli, eins og fyrr segir, og eru undanúrslitin eftir viku, 27. júní, en úrslitin 30. júní.

Leikirnir við Shamrock Rovers, ef af þeim verður, fara fram 11./12. júlí og 18./19. júlí, og verður fyrst spilað á heimavelli Shamrock Rovers á Írlandi.

Sigurliðið í forkeppninni sem Blikar spila í gat dregist gegn fimm liðum. Það voru Ferencváros frá Ungverjalandi, Ludogorets frá Búlgaríu, Zalgiris frá Litháen, The New Saints frá Wales, eða Shamrock Rovers.

Zalgiris, sem fyrrverandi Blikinn Árni Vilhjálmsson leikur með, dróst gegn Struga frá Norður-Makedóníu. Häcken, lið landsliðsmannsins Valgeirs Lunddal Friðrikssonar, dróst gegn The New Saints.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×