Innlent

Óttast flótta dag­for­eldra eftir sam­þykkt borgar­ráðs

Bjarki Sigurðsson skrifar
Einar Þorsteinsson er formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar. Halldóra Björk Þórarinsdóttir, formaður félags dagforeldra í Reykjavík, segir tillögur ráðsins ekki falla vel í kramið hjá dagforeldrum.
Einar Þorsteinsson er formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar. Halldóra Björk Þórarinsdóttir, formaður félags dagforeldra í Reykjavík, segir tillögur ráðsins ekki falla vel í kramið hjá dagforeldrum. Vísir/Vilhelm/Aðsend

Dagforeldrar eru afar ósáttir með fyrirætlarnir Reykjavíkurborgar um að greiða nýjum dagforeldrum milljón krónur í stofnstyrk. Formaður félags dagforeldra í Reykjavík, segist óttast flótta úr stéttinni. 

Fyrr í vikunni greindi Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, frá því að samþykktar hafi verið tillögur um að nýir dagforeldrar í Reykjavík fengu milljón króna í stofnstyrk. Þá yrði settur árlegur aðstöðustyrkur upp á 150 þúsund krónur sem tekur gildi eftir tvö ár í starfi.

Halldóra Björk Þórarinsdóttir, formaður Barnsins, félagsdagforeldra í Reykjavík, segir þessa samþykkt Reykjavíkurborgar ekki vera það sem dagforeldrar vildu heyra.

„Við tökum ekki vel í það því það hjálpar ekki fækkuninni, flóttanum úr stéttinni. Við viljum halda í þessa sem eru nú þegar starfandi, við viljum ekki að þeir hverfi á braut. Þeir urðu frekar slegnir að heyra þetta með þessa milljón í stofnstyrk. Svo kemur þessi aðstöðustyrkur upp á 150 þúsund sem Einar talar um að dagforeldrar fái árlega, sem er frábært. En upphaflega átti þessi styrkur að vera 200 þúsund þannig hann er lækkaður líka,“ segir Halldóra.

Milljóninni verður skipt þannig að nýir dagforeldrar fá greiddar 250 þúsund krónur við undirritun þjónustusamnings og svo 750 þúsund krónur ári síðar. Halldóra segir að umræddur þjónustusamningur hafi ekki verið kynntur fyrir dagforeldrum.

„Svo er talað um þjónustusamning, hvaða þjónustusamningur er það? Það er eitthvað sem við höfum aldrei séð og vitum ekki hvað felur í sér, hvað verður inni í honum og neitt þannig. Þannig við komum af fjöllum þegar þessi þáttur í Reykjavík síðdegis sem Einar var í kemur, þannig við vorum öll slegin yfir þessu. Við vissum ekki neitt hvað var í gangi,“ segir Halldóra.

Hún harmar að ekki sé haft samráð við dagforeldra er unnið er að málefnum þeirra. Til að mynda hafi áður verið loforð um daggæsluhús sem dagforeldrar hafa mikinn áhuga á. Þau loforð hafa hins vegar aldrei verið efnd.

„En hvar eru þau? Hvar á að setja þau niður? Hverjum stendur þeim til boða? Við erum ekki höfð með í neinni umræðu. Við erum ekki boðuð til fundar, við höfum óskað eftir fundum bæði með Einar og skóla- og frístundaráði en við höfum verið hunsuð, okkur er ekki svarað,“ segir Halldóra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×