Erlent

Forsetar þurftu að leita sér skjóls vegna eldflauga

Samúel Karl Ólason skrifar
Sendinefnd forseta frá Afríku er stödd í Kænugarði en forsetarnir þurftu að leita sér skjóls þegar Rússar skutu eldflaugum að borginni.
Sendinefnd forseta frá Afríku er stödd í Kænugarði en forsetarnir þurftu að leita sér skjóls þegar Rússar skutu eldflaugum að borginni. AP/Efrem Lukatsky

Háværar sprengingar heyrðust í Kænugarði í morgun eftir að Rússar skutu eldflaugum á borgina. Nokkrir forsetar Afríkuríkja eru staddir í Kænugarði, þar sem þeir munu ræða við ráðamenn um mögulegar friðarviðræður við Rússa. Því næst munu þeir fara til Pétursborgar í Rússlandi og hitta Vladimír Pútín, forseta.

Sendinefndin er skipuð forsetum frá Suður-Afríku, Senegal, Sambíu, Kómoreyjum og Egyptalandi. Þeir vilja bæði reyna að miðla mála milli Úkraínumanna og Rússa og reyna að tryggja að sendingar korns frá Úkraínu verði haldið áfram og reyna að kaupa áburð frá Rússlandi.

Ferð forsetanna byrjaði í Bucha, þar sem rússneskir hermenn myrtu fjölmarga óbreytta borgara í upphafi innrásar Rússa í Úkraínu í febrúar í fyrra. Á meðan þeir voru þar var eldflaugunum skotið á Kænugarð.

Sjá einnig: „Ég er búinn að drepa svo mikið af borgurum“

Úkraínumenn segjast hafa skotið niður sex Kinzhal eldflaugar, sem eiga að vera ofurhljóðfráar, sex stýriflaugar og tvo dróna.

Reuters hefur eftir yfirvöldum í Kænugarði að engar fregnir hafi borist af mannfalli eða alvarlegum skemmdum en lögreglan segir einhverja hafa særst og þá mögulega vegna fallandi braks.

Blaðamaður Reuters sá bílalest forsetanna er henni var ekið inn í Kænugarð og var stoppað við hótel, þar sem forsetarnir fengu að fara inn og leita sér skjóls.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, segir að eldflaugarnar vera skýr skilaboð til forsetanna. „Rússar vilja meira stríð, ekki frið,“ skrifaði hann á Twitter.


Tengdar fréttir

Litlar skemmdir á loftvarnarkerfinu

Patriot-loftvarnarkerfi Úkraínumanna í Kænugarði, skemmdist lítið í eld- og stýriflaugaárásum Rússa á aðfaranótt þriðjudags og virkar enn. Ratsjá kerfisins, sem er mikilvægasti hluti þess, skemmdist ekkert, og sérfræðingar telja að hægt verði að gera við skemmdirnar á staðnum.

Afríkuleiðtogar munu funda með Pútín og Selenskí

Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, segir að Vladimír Pútín og Vólódímír Selenskí, forsetar Rússlands og Úkraínu, hafi samþykkt að funda í sitthvoru lagi með sendinefnd skipaðri afrískum þjóðarleiðtogum um mögulegar leiðir til að binda enda á innrás Rússa í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×