Erlent

Þau látnu eldri borgarar á leið í spila­víti

Kjartan Kjartansson skrifar
Svartur reykur stígur frá flaki rútunnar á slysstað í Manitoba-fylki. Vitni segist hafa séð viðbragðsaðila reyna að bjarga fólki út úr brennandi rútunni.
Svartur reykur stígur frá flaki rútunnar á slysstað í Manitoba-fylki. Vitni segist hafa séð viðbragðsaðila reyna að bjarga fólki út úr brennandi rútunni. Vísir/EPA

Fimmtán eru nú sagðir hafa látist í árekstri flutningabíls og rútu á hraðbraut í Manitoba í Kanada í gær. Flestir þeirra sem létust voru eldri borgarar sem voru farþegar í rútunni. Tíu til viðbótar eru slasaðir eftir slysið.

Slysið átti sér stað við gatnamót á hrauðbraut nærri bænum Carberry í suðvestanverðu Manitoba, um 170 kílómetra vestur af Winnipeg, í gær. Tuttugu og fimm manns voru um borð í rútunni, flestir þeirra eldri borgarar frá bænum Dauphin sem voru á leið í spilavíti í Carberry.

Rob Lasson, lögregluforingi hjá konunglegu kanadísku riddaralögreglunni, segir að rútan hafi verið á suðurleið og að hún hefði átt að koma að stöðvunarmerki. Rútan hafi þverað akreinar sem liggja til austurs þegar hún varð fyrir flutningabílnum sem var ekið til austurs, að því er kemur fram í frétt AP-fréttastofunnar.

Hann sagði jafnframt að ökumenn bæði rútunnar og flutningabílsins væru lifandi og á sjúkrahúsi.

Sjónvarvottur segist hafa séð logandi rútuna í grasinu í vegarkantinum. Viðbragðsaðilar hafi reynt að bjarga fólki út úr brennandi flakinu.

Um 8.600 manns búa í Dauphin. Kim Armstrong, forstöðumaður öldrunarheimilisins þaðan sem rútan lagði upp í gærmorgun, segir missinn mikinn fyrir samfélagið sem sé í áfalli. 

Fánar við fylkisþingið í Winnipeg voru dregnir í hálfa stöng eftir slysið.

Justin Trudeau, forsætisráðherra, sagði slysið hörmulegt í tísti.

„Ég sendi dýpstu samúðaróskir minna til þeirra sem misstu ástvini í dag og ég hugsa til þeirra sem slösuðust,“ tísti Trudeau.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×