Erlent

Kynferðislegur lágmarksaldur færður úr 13 árum í 16

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þetta er aðeins í annað sinn sem löggjöfin um kynferðisbrot er uppfærð í meira en öld.
Þetta er aðeins í annað sinn sem löggjöfin um kynferðisbrot er uppfærð í meira en öld. epa/Franck Robichon

Stjórnvöld í Japan hafa gert breytingar á lögum er varða kynferðisbrot, sem fela meðal annars í sér að kynferðislegur lágmarksaldur hefur nú verið færður úr 13 árum í 16 ár. Þá hafa skilyrði „nauðgunar“ verið skýrð og gægjuhneigð gerð refsiverð.

Fyrir breytingarnar var kynferðislegur lágmarksaldur hvergi lægri en í Japan en hann er 14 ár í Kína og Þýskalandi, 15 ár á Íslandi og í Frakklandi og 16 ár á Bretlandseyjum, svo dæmi séu nefnd.

Samkvæmt nýjum ákvæðum eru veittar undanþágur vegna para þar sem báðir eru orðnir 13 ára og aldursbilið milli þeirra er fimm ár eða minna.

Þetta er aðeins í annað sinn í meira en öld sem löggjöfin um kynferðisbrot er uppfærð en það gerðist fyrst árið 2017. Þá höfðu lögin staðið óbreytt frá 1907.

Frumvarpið sem nú hefur verið samþykkt felur í sér upptalningu á ákveðnum aðstæðum þar sem hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að einstaklingi hafi verið nauðgað, til að mynda ef hann er undir áhrifum, ef hann var hræddur eða ef gerandinn misnotaði samfélagslega stöðu sína.

Áður þurftu saksóknarar að færa sönnur á að fórnarlambið hefði ekki getað spornað við verknaðinum sökum ofbeldis eða hótana.

Þá verður í fyrsta sinn ólögmætt að beita börn undir 16 ára tælingum eða hótunum í kynferðislegum tilgangi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×