Sport

Íhugaði sjálfsmorð eftir tap á Wimbledon

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tímabilið 2019 var afar erfitt fyrir Nick Kyrgios.
Tímabilið 2019 var afar erfitt fyrir Nick Kyrgios. getty/James D. Morgan

Ástralski tenniskappinn Nick Kyrgios íhugaði að fremja sjálfsmorð fyrir fjórum árum.

Í Netflix-þáttaröðinni Break Point ræðir Kyrgios um hremmingar sem hann lenti í tímabilið 2019.

„Þessi pressa, að hafa augu allra á þér, væntingarnar; ég gat ekki glímt við það. Ég hataði hvers konar maður ég var. Ég drakk, notaði eiturlyf, missti sambandið við fjölskylduna og ýtti öllum nánum vinum mínum frá mér,“ sagði Kyrgios í þættinum.

„Handleggirnir á mér voru útataðir í örum. Þess vegna spilaði ég með hlíf á handleggjunum. Ég íhugaði fyrir alvöru að fremja sjálfsmorð.“

Líðan Kyrgios versnaði eftir því sem leið á tímabilið 2019 og hann náði lágpunkti eftir tap fyrir Rafael Nadal á Wimbledon.

„Ég tapaði á Wimbledon. Ég vaknaði og pabbi sat við hliðina á mér og hann var að gráta. Það var vakningin fyrir mig þar sem ég sá að ég gat ekki haldið svona áfram. Ég endaði inni á geðdeild í London til að fá bót meina minna,“ sagði Kyrgios.

Ástralinn keppti ekki á Opna ástralska og Opna franska í ár en búist er við því að hann taki þátt á Wimbledon.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Píeta samtökin. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×