Handbolti

Valskonur ætla að verða fyrstar frá Íslandi til að komast í Evrópudeildina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valskonur fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum í Eyjum.
Valskonur fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum í Eyjum. vísir/anton

Íslandsmeistarar Vals ætla að reyna að komast í Evrópudeildina í handbolta, fyrst íslenskra kvennaliða. Valur varð Íslandsmeistari í nítjánda sinn eftir sigur á ÍBV, 3-0, í úrslitaeinvíginu í síðasta mánuði.

Samkvæmt tilkynningu frá HSÍ skráði Valur sig til leiks í Evrópudeildina en bikar- og deildarmeistarar ÍBV í Evrópubikarkeppnina. Stjarnan og Fram ákváðu að skrá sig ekki til leiks í Evrópubikarkeppnina.

Evrópudeildin er næststerkasta Evrópukeppnin á eftir Meistaradeildinni. Þangað hefur íslenskt lið aldrei komist. Enn liggur ekki fyrir hversu marga leiki Valskonur þurfa að spila í forkeppni Evrópudeildarinnar eða hvort þær þurfi að spila þar yfir höfuð. Það ræðst á fjölda liða sem skráir sig til leiks.

Ljóst er að Valskonur eru stórhuga en eftir að tímabilinu lauk sömdu þeir við Lovísu Thompson og markvörðinn Hafdísi Renötudóttur.

Karlalið Vals komst í sextán liða úrslit Evrópudeildarinnar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×