Viðskipti erlent

Linda Yaccarino ráðin nýr forstjóri Twitter

Máni Snær Þorláksson skrifar
Linda Yaccarino er nýr forstjóri Twitter samkvæmt Elon Musk.
Linda Yaccarino er nýr forstjóri Twitter samkvæmt Elon Musk. Getty/Cindy Ord

Linda Yaccarino er konan sem Elon Musk, eigandi Twitter, hefur ráðið sem forstjóra Twitter. Musk hefur verið starfandi forstjóri fyrirtækisins síðan hann keypti allt hlutafé í því í október í fyrra. Yaccarino mun að sögn Musk hefja störf eftir sex vikur.

Yaccarino er fyrrverandi auglýsingastjóri hjá NBCUniversal. Þar var hún yfirmaður ríflega tvö þúsund starfsmanna og sá, ásamt fleirum, um að koma streymiveitu fyrirtækisins í loftið. Hún starfaði hjá NBCUniversal í tólf ár en fyrir það starfaði hún hjá Turner Entertainment í fimmtán ár. 

Samkvæmt Musk mun Yaccarino aðallega leggja áherslu á viðskiptahluta fyrirtækisins. Hann muni sjálfur einbeita sér að vöruhönnun og tækni. 

Í síðasta mánuði var greint frá því að Musk væri búinn að breyta nafninu á fyrirtækinu í X Corp. og að um væri að ræða skref í átt að framtíðaráformum hans. Hann miði að því að gera Twitter að smáforriti fyrir „allt.“

„Spenntur að vinna með Lindu í að breyta þessum vettvangi í X, smáforritið fyrir allt,“ segir Musk einmitt í færslu sem hann birtir á Twitter-síðu sinni í dag.


Tengdar fréttir

Musk segist hafa fundið konu til að stýra Twitter

Kona tekur við sem forstjóri samfélagsmiðilsins Twitter ef eitthvað er að marka Elon Musk, eiganda og starfandi forstjóra miðilsins. Hann segist sjálfur ætla að halda áfram sem starfandi stjórnarformaður og tæknistjóri Twitter.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×