Handbolti

FH-ingum enn neituð innganga í Eyjaklúbbinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigursteinn Arndal talar við lærisveina sína sem eiga á hættu að vera sendir í sumarfrí í næsta leik.
Sigursteinn Arndal talar við lærisveina sína sem eiga á hættu að vera sendir í sumarfrí í næsta leik. Vísir/Hulda Margrét

Aðeins fjórum félögum hefur tekist að vinna ÍBV í úrslitakeppni úti í Vestmannaeyjum. Það leit út fyrir að það myndi fjölga í hópnum í gær en ótrúleg endurkoma heimamanna breytti því.

FH missti niður átta marka forskot í seinni hálfleik og Eyjamenn tryggðu sér á endanum sigur í framlengingu. ÍBV er þar með komið í 2-0 í undanúrslitaeinvígi liðanna og því aðeins einum sigri frá sæti í úrslitaeinvíginu.

FH þarf nú að vinna næstu þrjá leiki til að slá ÍBV út. Næsti leikur er í Kaplakrika á miðvikudaginn kemur.

Það fjölgaði ekki í Eyjaklúbbnum í gær en FH-ingar vonast til að fá aðra tilraun eftir tæpa viku.

Áfram eru það bara Haukar (6 sinnum) Valur (5 sinnum), Fram (1 sinni) og Afturelding (1 sinni) sem hefur tekist að vinna Eyjamenn í leik í úrslitakeppni í Eyjum.

FH-ingar eru ekki í þeim hópi en í gær var sjötta tilraun Hafnarfjarðarliðsins. Þeir gerðu gerðu reyndar jafntefli út í Eyjum í úrslitakeppninni 2021 en þá voru bara spilaðir tveir leikir og samanlögð úrslit réðu því hvort liðið færi áfram.

Hinir fimm leikir FH-liðsins á Heimaey hafa allir tapast.

FH-ingar töpuðu tvisvar úti í Eyjum í úrslitaeinvíginu 2018 og síðast þegar þeir slógu ÍBV út úr úrslitakeppninni, sem var fyrir 31 ári síðan, þá unnu Eyjamenn heimaleikinn. Tveir sigrar FH í Kaplakrika komu þeim í úrslitaeinvígið.

Liðin sem eru í hópi með FH, að hafa spilað í úrslitakeppninni en aldrei unnið, eru: KA, ÍR, Grótta og Stjarnan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×