Sport

Fyrrverandi heims- og Ólympíumeistari látin, aðeins 32 ára

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tori Bowie fagnar sigrinum í hundrað metra hlaupi á HM 2017.
Tori Bowie fagnar sigrinum í hundrað metra hlaupi á HM 2017. getty/Ulrik Pedersen

Bandaríski spretthlauparinn Tori Bowie, sem vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum og heimsmeistaramóti, er látin, 32 ára að aldri.

„Við höfum misst skjólstæðing, kæran vin, dóttur og systur. Tori var meistari, leiðarljós sem skein svo bjart,“ sagði í yfirlýsingu frá umboðsskrifstofu hennar. Ekki er vitað um dánarorsök.

Til að byrja með á ferlinum keppti Bowie í langstökki en hún sneri sér síðan að spretthlaupum. Árið 2014 átti hún besta tímann í hundrað metra hlaupi í heiminum.

Bowie var hluti af sigursveit Bandaríkjanna í 4x100 metra boðhlaupi á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Á sömu leikum endaði hún í 2. sæti í hundrað metra hlaupi og 3. sæti í tvö hundruð metra hlaupi.

Ári seinna varð Bowie heimsmeistari í hundrað metra hlaupi. Sigurtími hennar var 10,85 sekúndur. Besti tími hennar í hundrað metra hlaupi var 10,78 sekúndur.

Á síðasta stórmóti sínu, HM í Katar 2019, keppti Bowie aftur í langstökki og endaði í 4. sæti í greininni. Hún freistaði þess ekki að komast inn á Ólympíuleikana í Tókýó og keppti á sínu síðasta móti í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×