Sport

Stjarnan Íslandsmeistari sjötta árið í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stjörnukonur fagna titlinum.
Stjörnukonur fagna titlinum. Fimleikasamband Íslands

Stjarnan tryggði sér í gær Íslandsmeistaratitilinn í hópfimleikum kvenna, sjötta árið í röð.

Ríkjandi Íslandsmeistarar Stjörnunnar mættu til leiks á heimavöll í Garðabæ þar sem Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram í gær. Stjarnan átti titil að verja, enda hafði liðið orðið Íslandsmeistari fimm ár í röð fyrir gærdaginn.

Stjarnan fékk þó harða keppni frá Gerplu sem gaf ekkert eftir og augljóst að liðið var mætt til að veita Stjörnukonum alvöru samkeppni.

Liðin fengu svipaðar einkunnir bæði á gólfi og trampólíni þar sem Stjarnan hafði betur á gólfinu, en Gerpla á trampólíninu.

Stjörnukonur gerðu hins vegar virkilega vel á dýnunni þar sem liðið fékk 17,600 stig, en Gerpla 16,200. Stjarnan fékk því að lokum 52,750 stig gegn 51,000 stigum Gerplu og heimakonur stóðu því uppi sem sigurvegarar sjötta árið í röð. Gerpla hafnaði í örður sæti og Selfoss í því þriðja með 44,850 stig.

Þá fékk karlalið Stjörnunnar 49,250 í lokaeinkunn og blandað lið Hattar 40,275, en Stjarnan var eina liðið í karlaflokki og Höttur eina liðið í blönduðum flokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×