Erlent

Bóluefni við krabbameini sögð klár innan nokkurra ára

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kappið sem lagt var á að finna Covid-bóluefni hefur fleygt vísindamönnum fram við að finna bóluefni gegn alls kyns öðrum sjúkdómum.
Kappið sem lagt var á að finna Covid-bóluefni hefur fleygt vísindamönnum fram við að finna bóluefni gegn alls kyns öðrum sjúkdómum. vísir/vilhelm

Bóluefni við krabbameini, hjartveiki, lungnasjúkdómum og fjölda annarra sjúkdóma gætu verið tilbúin innan nokkurra ára, að sögn lyfjasérfræðinga. Framfarirnar sem náðust við þróun Covid-bóluefnisins hafa mikla þýðingu við þróun þessara bóluefna.

Guardian greinir frá þessu. Talið er að umrædd bóluefni verði komin á markað fyrir árið 2030.

Haft er eftir Paul Burton yfirlækni lyfjafyrirtækisins Moderna, sem vann að þróun mRNA bóluefnis við Covid, að hægt verði að veita vörn gegn fyrrgreindum sjúkdómum, jafnvel innan næstu fimm ára.

„Þessi bóluefni verða til staðar og þau verða mjög árangursrík. Þau munu bjarga lífi mörg hundruð þúsunda, ef ekki milljóna manna,“ segir Burton. „Ég held að við munum geta boðið upp á sérhæft bóluefni við hvers konar krabbameinsæxlum.“

Hann útskýrir að með tækninni verði hægt taka vefjasýni úr æxli krabbameinssjúklings og sérsníða í framhaldinu mRNA-bóluefni fyrir þann sama sjúkling. 

Áratuga framþróun á nokkrum mánuðum

Burton bætir við að hægt verði að veita vörn gegn alls kyns öndunarfærasjúkdómum með einni sprautu. Væri þá notast við mRNA tæknina sem „kennir“ frumum að mynda prótín sem kalla fram ónæmissvörun líkamans gegn sjúkdómum. Burton bindur miklar vonir við tæknina:

„Hægt verður að bjóða upp á mRNA-meðferðir gegn sjaldgæfum sjúkdómum sem áður fyrr var ekki hægt að veita lyfjagjöf gegn. Að 10 árum liðnum verður hægt að greina erfðafræðilegar orsakir sjúkdóma og lækna þær með mRNA-tækni.“

Vísindamenn hafi hins vegar áhyggjur af því að magn fjárfestinga, sem fékkst við þróun Covid bóluefnis, muni dvína á næstu árum og þar með þróun fyrrgreindra bóluefna. Áratuga framþróun hafi átt sérstað á aðeins nokkurra mánaða skeiði þegar unnið var að þróun Covid-bóluefnisins.

Hér má lesa umfjöllun Guardian í heild sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×