Erlent

Fram­tíð Sönnu Marin í em­bætti ræðst í kvöld

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Miðað við fyrstu tölur er ólíklegt að Sanna Marin verði forsætisráðherra á næsta kjörtímabili.
Miðað við fyrstu tölur er ólíklegt að Sanna Marin verði forsætisráðherra á næsta kjörtímabili. AP Photo/Sergei Grits

Finnar gengu til kosninga í dag en samkvæmt fyrstu tölum leiðir Sambandsflokkurinn kapphlaupið með einu prósentustigi. Verði niðurstaða kosninga í takt við þetta mun Sanna Marin forsætisráðherra þurfa að láta af embætti.

Mjótt er á munum en samkvæmt fyrstu tölum er Sambandsflokkurinn með 20,9 prósenta fylgi, Jafnaðarmannaflokkurinn, flokkur Sönnu Marin forsætisráðherra, með 19,6 prósent og þjóðernisflokkurinn Finnaflokkurinn með 20,5 prósent.

Formaður Sambandsflokksins var sigurstranglegur þegar hann mætti á kjörstað í morgun.

„Ég er mjög bjartsýnn og jákvæður. Ég tel að Sambandsflokkurinn verði stærsti flokkurinn og flokkur næsta forsætisráðherra. Kosningabarátta okkar var afar vel heppnuð. Við erum með mjög góða frambjóðendur um allt land og höfum staðið okkur mjög vel. Þess vegna er ég bjartsýnn. Sjáum til,“ sagði Petteri Orpo, formaður Sambandsflokksins.

Fyrirséð er að ríkisstjórnarmyndun verði nokkuð flókin. Finnska þingið hefur sjaldan verið jafn brotakennt og tíu flokkar með sæti á þingi. Því mun sá flokkur sem ber sigur úr býtum í kvöld þurfa að reiða sig á samstarf við nokkra flokka líkt og síðasta ríkisstjórn. Hana mynduðu fimm flokkar: Miðflokkurinn, Græningjar, Vinstriflokkurinn, sænski fólksflokkurinn og loks Jafnaðarmannaflokkurinn.

Hefðin í Finnlandi er sú að stærsti flokkurinn leiði stjórnarmyndunarviðræður og fara með embætti forsætisráðherra. Það er þó talið ólíklegt að nokkur muni vilja mynda ríkisstjórn með Finnaflokknum, sem segist þó tilbúinn til að gefa eftir.

„Auðvitað munum við verja markmið okkar og gildi. En samsteypustjórnir eru aðeins í boði í Finnlandi. Þess vegna þarf að gera málamiðlanir. Við gerum okkur grein fyrir þessu. Takk fyrir,“ sagði Riikka Purra formaður Finnaflokksins á kjörstað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×