Chelsea sneri við taflinu gegn Dort­mund og er komið á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kai Havertz var frábær í kvöld.
Kai Havertz var frábær í kvöld. Darren Walsh/Getty Images

Chelsea hefur átt verulega erfitt uppdráttar undanfarið og var undir í einvígi sínu gegn Borussia Dortmund í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu fyrir leik kvöldsins á Brúnni. Lærisveinar Graham Potter léku líklega sinn besta leik undir hans stjórn og unnu góðan 2-0 sigur.

Chelsea var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik án þess þó að skapa sér afgerandi marktækifæri framan af. Kai Havertz átti skot í stöngina og skoraði svo stórglæsilegt mark, slá og inn, en það var dæmt af þar sem Raheem Sterling var rangstæður í aðdraganda marksins.

Heimamenn komust hins vegar yfir á markamínútunni frægu – 43. mínútu – þegar Raheem Sterling skoraði með skoti upp í þaknetið. Alexander Meyer, markvörður Dortmund, var eflaust ósáttur en þrátt fyrir að eiga góðan fyrri hálfleik hefði hann mögulega átt að gera betur í markinu.

Heimamenn fengu vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks þar sem boltinn fór í hendina á leikmanni Dortmund. Havertz fór á punktinn en spyrna hans fór í stöngina og Salih Ozcan hreinsaði í kjölfarið. Ozcan var hins vegar inn í teig þegar spyrnan var tekin og því þurfti að endurtaka hana. 

Havertz setti boltann aftur niðri í hægra hornið og að þessu sinni var stöngin ekki fyrir, staðan orðin 2-0 og útlitið dökkt fyrir Dortmund.

Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka skoraði Conor Gallagher þriðja mark Chelsea eftir undirbúning Sterling en sá síðarnefndi var aftur rangstæður og markið dæmt af. Þrátt fyrir mikla pressu Dortmund undir lok leiks þá tókst þeim ekki að skapa sér opið marktækifæri og Chelsea vann 2-0 sigur sem þýðir að liðið er komið áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira