Erlent

Elsta manneskja heims er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Systir Andre hafði borið titilinn „elsta manneskja heims“ síðan í apríl 2021.
Systir Andre hafði borið titilinn „elsta manneskja heims“ síðan í apríl 2021. AP

Systir Andre, frönsk nunna sem tók á síðasta ári við titlinum „elsta manneskja heims“, er látin. Hún var 118 ára gömul og hefði orðið 119 í næsta mánuði.

Heimsmetabók Guinness útnefndi systur Andre elstu manneskju heims í apríl á síðasta ári í kjölfar andláts hinnar japönsku Kane Tanaka. Tanaka varð 119 ára.

Systir Andre var lést í svefni á hjúkrunarheimili í Toulon í gær.

Systir Andre fæddist 11. febrúar 1904 og hét Lucile Randon réttu nafni. Hún fæddist inn í fjölskyldu sem var mótmælendatrúar en hún snerist sjálf til kaþólskrar trúar 26 ára gömul og gekk í klaustur 41 árs gömul.

Snemma árs 2021 greindist systir Andre með kórónuveiruna á hjúkrunarheimilinu.

Aðspurð um hver leyndardómurinn væri á bakvið langlífið sagði hún það vera að vinna að hag annarra og hlúa að þeim. „Fólk segir að vinnan drepi, en fyrir mig þá hefur vinnan haldið í mér lífi. Ég hélt áfram að vinna þar til að ég varð 108 ára.“

Nunnan hafnaði beiðnum um að vísindamenn fengju lífsýni úr henni til að rannsaka langlífi. Hún sagði það einungis á valdi guðs að skilja slíkt.

Í frétt AP segir að elsta núlifandi manneskja heims sé Maria Branyas Morera, sem fæddist í Bandaríkjunum en sem býr á Spáni. Hún er 115 ára gömul.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×