Lífið

Illugi segist alltof þungur og ætlar að missa 50 kíló á árinu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Illugi Jökulsson.
Illugi Jökulsson. vísir.

Illugi Jökulsson, rithöfundur og útvarpsmaður, segist vera alltof þungur og ætlar sér að losa sig við 50 kíló næsta árið. Núverandi þyngd segir hann ógna heilsu sinni.

„Fjöldi fólks lifir að vísu góðu lífi og við hestaheilsu þó það sé „of þungt“ samkvæmt skilgreiningu, en það gildir ekki í mínu tilfelli lengur. Til þess er ég of hjartveikur, kæfisvefninn of harður og hnén farin að erfiða of mikið,“ skrifar Illugi í færslu á Facebook

Hann ætlar því að missa kíló í hverri viku næsta árið og verða sem næst 83 kílóum um næstu áramót. Síðsumars ætlar hann vera búinn að skila bók um Skaftárelda og móðuharðindi til prentunar og stefnir þá á tveggja vikna ferð til Marokkó, „og ég ætla að leyfa mér að léttast ekki þær vikur!,“ skrifar Illugi.

Þá er bara spurningin hvernig hann muni fara að þessu?

„Það veit ég varla ennþá. Ég gæti tekið upp á ýmsu. En þó veit ég að strax í dag hefst Plan A og það mikilvægasta: Borða minna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×