Sport

Snæfríður Sól komst í undanúrslit en ekki Anton Sveinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Anton Sveinn Mckee með þjálfarnum Eyleifi Jóhannessyni.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Anton Sveinn Mckee með þjálfarnum Eyleifi Jóhannessyni. SSÍ

Snæfríður Sól Jórunnardóttir stóð sig frábærlega á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug í Ástralíu en hún synti sig inn í undanúrslitin í 100 metra skriðsundi.

Snæfríður Sól kom í mark á nýju Íslandsmeti en hún synti á 53,21 sekúndum. Gamla metið átti hún sjálf, 53,75 sekúndur, en það setti hún aðeins fyrir einum mánuði síðan.

Snæfríður Sól náði fimmtánda besta tímanum í undanrásum en sextán hröðustu sundkonurnar komust áfram. Snæfríður syndir í undanúrslitunum í morgunsárið.

Anton Sveinn McKee varð í átjánda sæti í undanrásum í 100 metra bringusundi en hann kom í mark á 58,01 sekúndum og komst því ekki áfram í sextán manna úrslitin. Anton Sveinn var langt frá Íslandsmeti sínu sem er 56,30 sekúndur.

Anton Sveinn mun einnig keppa í 50 metra og 200 metra bringusundi á mótinu. Snæfríður Sól mun einnig keppa í 200 metra skriðsundi á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×