Innlent

Kæmi Bjarna á ó­vart ef landsfundur sæi ástæðu til að skipta honum út

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það kæmi sér á óvart ef landsfundur Sjálfstæðisflokksins sæi ástæðu til að skipta um forystu flokksins á þessum tímapunkti kjörtímabilsins.

Þetta sagði Bjarni í Bítinu á Bylgjunni í morgun spurður um mögulegt mótframboð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins. Morgunblaðið greindi frá því í morgun að Guðlaugur, sem gegnir embætti umhverfis-,orku-, og loftslagsmálaráðherra í ríkisstjórninni væri að íhuga framboð til formanns Sjálfstæðisflokksins.

Kosið verður um forystu Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 4. til 6. nóvember næstkomandi. Bjarni sækist þar eftir endurkjöri. Hann var spurður út í mögulegt mótframboð Guðlaugs Þórs í Bítinu í morgun.

„Hann hefur nú ekkert gefið það út enn þá,“ svaraði Bjarni.

Hann er að skoða það?

„Jájá, ég sé fréttir. Það er reyndar þannig hjá okkur í Sjálfstæðisflokknum að það geta allir verið í framboði. Það eru eiginlega allir í framboði sem að bara að lyfta upp hönd á fundunum,“ sagði Bjarni enn fremur sem bætti við að hann tæki því ekki sem sjálfsögðum hlut að vera endurkjörinn sem formaður Sjálfstæðisflokksins.

Hann sagði þó að það myndi koma sér á óvart ef ákveðið yrði að skipta um forystu flokksins þegar aðeins eitt ár er liðið af núverandi kjörtímabili.

„Mér finnst hins vegar núna, við erum að hefja þetta kjörtímabil, það er eitt ár búið og það er mikið eftir. Það kæmi mér á óvart, ég verð nú að segja það bara alveg hreint út, ef að menn sæju ástæðu til þess að fara að skipta um forystu flokksins á þessum tímapunkti. Það eru hlutir sem mér finnst kannski eiga frekar heima þegar menn eru að fara inn í kosningar og menn segja: „Heyrðu, nú vil ég leiða flokkinn í kosningum og ganga til samtals við kjósendur,“ sagði Bjarni.


Tengdar fréttir

Lands­fundur hjá Sjálf­stæðis­flokknum í nóvember

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að halda landsfund flokksins í Laugardalshöll dagana 4.-6. nóvember næstkomandi. Á landsfundi er stefna flokksins mótuð og kosið í embætti formanns, varaformanns og ritara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×