Erlent

Telja manninn sem lést hafa verið skot­mark á­rásar­mannsins

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Petra Stenkula lögreglustjóri í Malmö greindi frá stöðu mála á blaðamannafundi í morgun.
Petra Stenkula lögreglustjóri í Malmö greindi frá stöðu mála á blaðamannafundi í morgun. EPA-EFE/JONAH NILSSON

Kona sem liggur þungt haldin á sjúkrahúsi í Malmö eftir að hafa verið skotin í verslunarmiðstöðinni Emporia í gær var almennur vegfarandi að sögn lögreglu. Konan er enn á sjúkrahúsi en ástand hennar sagt stöðugt og hún ekki lengur talin í lífshættu. Maður sem lést af sárum sínum í gær er talinn hafa verið skotmark árásarmannsins. 

Mikil ringulreið skapaðist í verslunarmiðstöðinni á fjórða tímanum síðdegis í gær þegar byssuskot heyrðust inni í miðstöðinni. Árásarmanninum, sem er sagður aðeins fimmtán ára gamall, tókst að skjóta tvo en 31 árs karlmaður sem varð fyrir skoti lést í gærkvöldi. 

Sá sem var handtekinn í árásinni er sagður frá Gautaborg og áður óþekktur af lögreglunni. Að sögn lögreglu bendir allt til að hann hafi verið einn að verki. 

Mikill viðbúnaður var við verslunarmiðstöðina í gær.EPA-EFE/Johan Nilsson

„Allt bendir til að karlmaðurinn hafi verið skotmark árásarmannsins. Því miður virðist konan aðeins hafa villst þarna fram hjá og var í kjölfarið skotin,“ sagði Petra Stenkula lögreglustjóri í Malmö í yfirlýsingu í morgun og ríkisútvarp Svíþjóðar greinir frá. 

Að sögn Stenkula er ástandið í Malmö mjög viðkvæmt og ofbeldisglæpum hafi fjölgað þar að undanförnu. Margir hafi misst ástvini sína vegna ofbeldisglæpa undanfarið og borgarbúar finni vel fyrir þessari breytingu. 

„Við þurfum að ráðast í langtímavinnu til að vinna bug á þessari ofbeldismenningu sem hefur skapast meðal ungmenna,“ sagði Stenkula.

Lögreglan hefur hvatt vitni til þess að hafa samband til að fara yfir atburðarrásina og hjálpa rannsókn lögreglu þannig. Þá hefur lögreglan tilkynnt að miðstöð verði sett upp til að veita fólki áfallahjálp eftir atvikið. 


Tengdar fréttir

Einn er látinn eftir skot­á­rásina

Karlmaður lést af sárum sínum sem hann hlaut þegar árásarmaður, sem sagður er vera aðeins fimmtán ára gamall, hóf skothríð í verslunarmiðstöð í Malmö síðdegis.

Slökktu ljósin og földu sig á meðan byssumanns var leitað

Nokkrir Íslendingar voru á meðal þeirra sem földu sig eftir að skotum var hleypt af í verslunarmiðstöðinni Emporia í miðbæ Malmö í Svíþjóð. Hið minnsta einn hefur verið handtekinn, karlmaður undir lögaldri, og tveir eru sagðir alvarlega særðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×