Fótbolti

Bale stefnir á tvö stórmót í viðbót

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gareth Bale ætlar sér ekki að hætta knattspyrnuiðkun alveg strax.
Gareth Bale ætlar sér ekki að hætta knattspyrnuiðkun alveg strax. James Williamson - AMA/Getty Images

Velski knattspyrnumaðurinn Gareth Bale stefnir á að taka þátt á EM í Þýskalandi árið 2024 og jafnvel HM í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada árið 2026. 

Þessi 32 ára knattspyrnumaður gekk í raðir Los Angeles FC í bandarísku MLS-deildinni á dögunum, en margir höfðu búist við því að hann myndi leggja skóna á hilluna eftir að þátttöku hans á HM í Katar í lok árs myndi ljúka.

Á sínum fyrsta blaðamannafundi eftir vistaskiptin til Bandaríkjanna sagði Bale hins vegar að hann ætti nóg eftir.

„Ég kom ekki til að vera hérna í stuttan tíma,“ sagði Bale. „Ég held að það að ég sé hér gefi mér bestu möguleikana á því að komast á Evrópumótið árið 2024, og hver veit, kannski eitt stórmót enn. Það er markmiðið. Ég kom hingað til að spila stórt hlutverk og ég get ekki beðið eftir því að byrja. Ég hef lengi fylgst með MLS-deildinni þó það hafi stundum verið erfitt út af tímamismuninum, en ég hef alltaf reynt að horfa á hana í sjónvarpinu.“

„Gæðin í deildinni eru að aukast mikið og hún er mun sterkari en fólkið í Evrópu heldur. Deildin er að verða betri, vellirnir eru að verða betri og liðin eru að verða betri þannig að þetta er deild sem er klárlega á uppleið.“

„Ég held að það horfi enginn lengur á MLS-deildina sem eftirlaunadeild. Hún er líkamleg og tekur á,“ sagði Bale að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×