Umfjöllun: Noregur-Norður-Ír­land 4-1 | Norska liðið átti ekki í vandræðum í frumsýningunni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Frida Maanum, Ingrid Syrstad Engen, Guro Reiten, Ada Hegerberg og liðsfélagar þeirra hjá norska liðinu léku við hvurn sinn fingur á St. Mary's-leikvangnum í kvöld. 
Frida Maanum, Ingrid Syrstad Engen, Guro Reiten, Ada Hegerberg og liðsfélagar þeirra hjá norska liðinu léku við hvurn sinn fingur á St. Mary's-leikvangnum í kvöld.  Vísir/Getty

Noregur fer vel af stað á Evrópumótinu í fótbolta kvenna en liðið vann afar sannfærandi 4-1 sigur þegar liðið mætti Norður-Írlandi í seinni leik fyrstu umferðar í A-riðli mótsins í dag. England hafði betur gegn Austurríki í A-riðlinum í fyrsta leik mótsins í gær. 

Julie Blakstad, Frida Leonardsen Maanum og Caroline Graham Hansen skoruðu mörk norska liðsins sem nýttu sér slakt uppspil norður-írska liðsins og klaufagang í varnarleik þeirra í mörkunum þremur. 

Mark Hansen kom úr vítaspyrnu en Noregur var 3-0 yfir í hálfleik og nánast var mögulegt að bóka norskan sigur. 

Julie Nelson, sem lék á árum áður með ÍBV, klóraði þó í bakkann fyrir Norður-Írland í upphafi seinni hálfleiks en hún skoraði eftir sendingu frá Rachel Furness, sem lék um skeið með Grindavík. 

Guro Reiten slökkti aftur á móti þann litla vonarneista sem gæti hafa kviknað hjá Norður-Írum við mark þeirra. 

María Þórisdóttir var á sínum stað í hjarta varnarinnar hjá Noregi og stóð sig með stakri prýði. 

Íslenska liðið mætir svo til leiks á sunnudaginn kemur þegar liðið etur kappi við Belgíu á æfingavelli Manchester City. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira