Erlent

Nóbelsmedalía Muratov slegin á 13 milljarða króna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Muratov sagðist ekki hefðu getað ímyndað sér að þvílík upphæð fengist fyrir medalíuna.
Muratov sagðist ekki hefðu getað ímyndað sér að þvílík upphæð fengist fyrir medalíuna. AP/Eduardo Munoz Alvarez

Nóbelsmedalía rússneska blaðamannsins Dmitry Muratov var seld á uppboði í gær og slegin á 103,5 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 13,5 milljarða króna. Féð mun renna til UNICEF, til að aðstoða börn sem hafa flúið heimili sín í Úkraínu.

„Ég vonaðist eftir mikilli samstöðu en ég átti ekki von á að þetta yðri svona há upphæð,“ sagði Muratov að uppboðinu loknu.

Kaupandi verðlaunapeningsins er óþekktur, enn sem komið er, en ljóst er að um er að ræða nýtt met hvað varðar upphæð sem greidd hefur verið fyrir Nóbelsverðlaun. Fyrra metið var sett árið 2014, þegar James Watson seldi medalíuna sína fyrir 4,76 milljónir Bandaríkjadala.

Watson hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1962, fyrir sinn þátt í uppgötvun sameindagerðar kjarnsýra, það er að segja erfðaefnisins.

Muratov var verðlaunaður í fyrra, fyrir framlag sitt til blaðamennsku og tjáningarfrelsisins. Hann var einn stofnenda sjálfstæða miðilsins Novaya Gazeta og var meðal annars mjög gagnrýninn á innlimun Krímskaga árið 2014.

Mikil stemning myndaðist í uppboðssalnum í New York í gær, þar sem mögulegir kaupendur eggjuðu hvorn annan til að gera hærri tilboð í verðlaunapeninginn. Sá sem bauð milljarðana 13, í gegnum síma, fór nokkuð langt yfir síðasta boð og kom viðstöddum þannig skemmtilega á óvart.

Muratov sagðist vona til að aðrir myndu feta í fótspor hans og bjóða upp verðmætar eignir til styrktar Úkraínumönnum.


Tengdar fréttir

Tveir blaðamenn hljóta friðar­verð­laun Nóbels

Filippseyska blaðakonan og rithöfundurinn Maria Ressa og rússneski blaðamaðurinn Dmitry Muratov hljóta friðarverðlaun Nóbels í ár fyrir baráttu sína til að tryggja tjáningarfrelsi í heiminum sem sé forsenda lýðræðis og varanlegs friðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×