Viðskipti erlent

Olíuverð tekur kipp eftir innflutningsbann ESB

Kjartan Kjartansson skrifar
Greinandi í kauphöllinni í New York.
Greinandi í kauphöllinni í New York. AP/Courtney Crow/NYSE

Tunnan af olíu hækkaði um þrjú prósent og kostar nú nærri því 120 dollara eftir að Evrópusambandríki náðu samkomulagi um að banna innflutning á nær allri olíu frá Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu. Olíuverð hefur þegar hækkað um sextíu prósent á þessu ári.

Innflutningsbann ESB nær til olíu sem er flutt sjóleiðina til álfunnar en tímabundinn undanþága er til staðar fyrir olíu sem er flutt um leiðslur. Ungversk stjórnvöld kröfðust undanþágunnar en öll aðildarríki sambandsins þurftu að samþykkja refsiaðgerðirnar.

AP-fréttastofan segir að bandarísk hráolía hafi hækkað um 3,52 dollara á mörkuðum í New York eftir tíðindin í morgun. Tunnan kostaði þá 118,59 dollara. Olíuverð hækkaði um tæpan dollara í gær.

Brent-hráolía, sem er alþjóðlegt viðmið um olíuverð, hæakkaði um 1,72 dollara og stóð í 119,32 dollurum tunnan í morgun.

Mikil verðhækkun á olíu, að hluta til vegna stríðs Rússa í Úkraínu, á þátt í mesta verðbólguskoti í vestrænum ríkjum í seinni tíð. Verðbólgan í nítján ríkjum evrusvæðisins náði 8,1 prósenti fyrr í þessum mánuði. Það er mesta verðbólga sem hefur mælst þar frá því að evran var tekin upp árið 1997.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×