Frábær fyrri hálfleikur skilaði Liverpool í úrslit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sadio Mané skoraði tvö mörk fyrir Liverpool í dag.
Sadio Mané skoraði tvö mörk fyrir Liverpool í dag. James Gill - Danehouse/Getty Images

Liverpool er á leið í úrslitaleik FA-bikarsins eftir 3-2 sigur gegn Englandsmeisturum Manchester City á Wembley í dag, en það var helst frábær fyrri hálfleikur Rauða hersins sem skilaði sigrinum.

Liverpool tók forystuna snemma leiks þegar Ibrahima Konate reis manna hæst í vítateignum og stangaði hornspyrnu Andy Robertson í netið á níundu mínútu.

Staðan var svo orðin 2-0 átta mínútum síðar þegar Zack Steffen, markvörður Manchester City, reyndi að herma eftir kollega sínum Ederson og ætlaði að leika á Sadio Mané. Sá síðarnefndi þakkaði pent fyrir sig og tvöfaldaði forystu Liverpool.

Mané var svo aftur á ferðinni á seinustu mínútu fyrri hálfleiks þegar hann tók boltann á lofti og þrumaði boltanum í netið eftir sendingu frá Thiago Alcantara og staðan því 3-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Englandsmeistararnir þurftu mark snemma í síðari hálfleik til að eiga möguleika gegn Liverpool og þeir fengu það svo sannarlega. Hundrað milljón punda maðurinn Jack Grealish setti boltann þá í netið eftir flottan undirbúning frá Gabriel Jesús.

Englandsmeistararnir reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn enn frekar og það tókst loksins þegar komið var tæpa mínútu fram yfir venjulegan leiktíma. Bernardo Silva var þá fyrstur að átta sig eftir að Alisson varði frá Riyad Mahrez og setti boltann í autt netið.

Liðsmenn City fengu svo sín færi til að jafna metin í uppbótartímanum, en allt kom fyrir ekki og leikmenn Liverpool fögnuðu 3-2 sigri. Liverpool er því á leið í úrslitaleik FA-bikarsins í fyrsta sinn undir stjórn Jürgens Klopp, en Englandsmeistararnir sitja eftir með sárt ennið.

Liverpool mætir annað hvort Chelsea eða Crystal Palace í úrslitum FA-bikarsins, en Lundúnaliðin mætast á morgun. Úrslitaleikurinn sjálfur fer svo fram laugardaginn 14. maí á Wembley.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira