Erlent

39 látnir í Kramatorsk en Rússar segjast alsaklausir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þegar þessi mynd var tekin var búið að fjarlægja líkin sem áður lágu eins og hráviði innan um farangur og barnakerrur.
Þegar þessi mynd var tekin var búið að fjarlægja líkin sem áður lágu eins og hráviði innan um farangur og barnakerrur. AP

Að minnsta kosti 39 eru látnir og um 90 slasaðir eftir að árás var gerð á lestarstöðina í Kramatorsk, þar sem talið er að um 4.000 manns almennir borgara hafi beðið eftir að komast burtu frá Donbas.

Meðal látnu voru að minnsta kosti tvö börn.

Þúsundir hafa hafst við á lestarstöðinni síðustu daga, enda hafa yfirvöld í Donetsk og Luhansk hvatt íbúa, sérstaklega börn, konur og aldraða, að koma sér burtu áður en sókn Rússa í austurhluta Úkraínu hefst af fullum þunga.

Því var vitað að mikill fjöldi væri á stöðinni.

Rifist er um það hvaðan eldflaugin kom en á henni hefur verið ritað „Fyrir börnin“ á rússnesku.AP/Andriy Andriyenko

Ráðamenn í Úkraínu segja árásina hafa verið framda af Rússum en rússnesk stjórnvöld að um sé að ræða enn eina „ögrunina“ af hálfu Úkraínumanna, það er að segja tilraun til að láta stjórnvöld í Rússlandi líta illa út.

Bent hefur verið á að áður en fjöldi látinna lá fyrir höfðu Rússar greint frá því að hafa gert árásir á lestarstöðvar á svæðinu og þá höfðu stuðningsmenn þeirra fagnað árásunum ákaft. Þetta var hins vegar síðar dregið til baka.

Á samfélagsmiðlum greinir menn á um hvaðan eldflaugin sem banaði fólkinu kom; í fyrstu var því haldið fram að um væri að ræða Iskander-flaug Rússa en nú virðast flestir sammála um að eldflaugin sé af gerðinni Tochka-U, sem bæði Úkraínumenn og Rússar hafa átt.

Dmytri Peskov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu, hélt því fram í morgun að aðeins Úkraínumenn notuðu Tochka-flaugarnar í dag.

Fylgjast má með þróun mála í Vaktinni á Vísi, sem finna má hér fyrir neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×