Umfjöllun og viðtöl: FH 29-34 ÍBV | Eyjamenn sannfærandi í Hafnarfirði

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Petar Jokanovic átti góðan leik í marki ÍBV.
Petar Jokanovic átti góðan leik í marki ÍBV. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

FH fékk ÍBV í heimsókn í kvöld í frestuðum leik úr 16. umferð Olís-deildar karla í handbolta. Leikurinn var langt frá því að vera spennandi og endaði með öruggum sigri ÍBV 29-34.

Fyrir leikinn munaði aðeins einu stigi á liðunum tveim. FH var í þriðja sæti deildarinnar tveimur stigum á eftir Val og fjórum stigum á eftir toppliði Hauka. ÍBV sat sæti neðar en FH. Leikurinn í kvöld var sá leikur sem FH og ÍBV áttu til góða á öll önnur lið deildarinnar, en aðeins þrjár umferðir eru eftir af Olís-deildinni. Með sigri ÍBV í kvöld á liðið en ágætis möguleika á að landa deildarmeistaratitlinum þar sem bæði Haukar og Valsmenn eiga talsvert erfiðari leiki eftir samkvæmt pappírnum góða.

FH komst aðeins í forystu í byrjun leiks, 1-0 og 2-1 en eftir það tók ÍBV öll völd á vellinum. Eyjamenn náðu að skapa sér ágætis færi nánast í hverri sókn á meðan FH-ingar töpuðu boltanum í gríð og erg ásamt því að hafa litla markvörslu. FH tapaði boltum tólf sinnum bara í fyrri hálfleik ásamt því að verja aðeins þrjá bolta. ÍBV jók forskot sitt hægt og bítandi allan fyrri hálfleikinn. Náðu þeir mest sjö marka forystu í stöðunni 11-18. Hálfleikstölur voru 13-19 Eyjamönnum í vil.

Eyjamenn hófu seinni hálfleikinn á að komast strax í níu marka forystu. Þá gerði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, breytingu og setti Svavar Inga Sigmundsson í markið í stað Phil Döhler. Svavar Ingi byrjaði strax að verja sem kom í veg fyrir að ÍBV myndi algjörlega niðurlægja heimamenn. Eyjamenn héldu þó FH-ingum alltaf í um fimm til sjö marka fjarlægð frá sér í síðari hálfleik. Síðasta korter leiksins var ansi andlaust af hálfu beggja liða. Leikurinn mallaði bara áfram og bæði lið búin að sætta sig við sinn hlut, sigur Eyjamanna óumflýjanlegur.

Af hverju vann ÍBV?

Eyjamenn mættu einfaldlega til leiks á meðan FH-ingar gerðu það alls ekki. Eyjamenn spiluðu sinn sóknarleik nánast óáreittir og sköpuðu sér aragrúa úrvals færa. ÍBV að sýna sínar bestu hliðar þegar styttist í úrslitakeppnina, kunnuglegt stef.

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði ÍBV var nánast hver einn og einasti sem steig inn á völlinn að skila góðri frammistöðu. Markaskorun dreifðist nokkuð vel og þrátt fyrir það enduðu fimm leikmenn liðsins með fjögur mörk eða meira. Rúnar Kárason endaði þó markahæstur hjá ÍBV með sex mörk og þrjár stoðsendingar.

Petar Jokanovic, markvörður ÍBV, var með sýningu á köflum í síðari hálfleik þar sem hann varði nokkur færi úr hraðaupphlaupum FH-inga stórkostlega. Þrettán varðir boltar hjá Petar Jokanovic.

Hjá FH endaði Jóhann Birgir Ingvarsson sem markahæsti maður liðsins. Sjö mörk úr tíu skotum. Jakob Martin Ásgeirsson og Svavar Ingi Sigmundsson áttu einnig ágætis leik fyrir FH, en aðrir leikmenn liðsins geta miklu betur.

Hvað gekk illa?

Eins og áður segir mættu leikmenn FH ekki til leiks í dag. Tólf tapaðir boltar í fyrri hálfleik, sem Eyjamenn nýttu sér iðulega vel, er ekki boðlegt í stórleik sem þessum.

Ásbjörn Friðriksson, leikstjórnandi FH, er alveg bensínlaus eins og iðulega kemur fyrir hann á seinni hluta tímabils undanfarin ár. Þrjú mörk úr átta skotum í dag og voru öll mörkin úr vítum. FH þarf meira frá Ásbirni.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn fara í stutta ferð upp á land og mæta Selfyssingum í Set höllinni á laugardaginn klukkan 16:00. Klukkan 18:30 sama dag mætir FH Fram í Framhúsinu í Safarmýrinni.

Grímur Hergeirsson: Það er bara gamla klisjan. Við tökum bara einn leik í einu

Stjarnan - Selfoss Olísdeild karla. Vetur 2019-2020. Handbolti.Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

„Þetta var alveg fínasti leikur frá okkur þannig. En náttúrulega tölurnar eins og við sáum í fyrri hálfleik, FH-ingarnir þeir voru ekki alveg mættir til leiks það verður bara að segjast eins og er. Með frábært lið í vetur (FH). það auðvitað gerir þetta pínulítið auðveldara fyrir okkur. En ég vil ekki taka þetta af okkar strákum að við vorum að spila vel og gera það sem við ætluðum okkur.“

Aðspurður hvort ÍBV væri að toppa á réttum tíma hafði Grímur Hergeirsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, þetta að segja.

„Það er ekki rétti tíminn núna sko. Það er ekki fyrr en aðeins seinna. Við erum bara að reyna að byggja okkur upp fyrir úrslitakeppnina og auðvitað bónus að taka sem flesta punkta. Þetta gengur út á það og í dag tókum við tvo góða punkta. Síðan reynum við bara að halda áfram að byggja upp og byggja ofan á þetta.“

ÍBV á enn góðann möguleika á að hreppa deildarmeistaratitilinn. Grímur Hergeirsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, gaf þó lítið fyrir það að liðið væri að stefna á þann titil.

„Það er bara gamla klisjan. Við tökum bara einn leik í einu, við erum ekkert mikið að horfa upp töfluna. Við erum svolítið að reyna að fókusera á okkur og okkar leik. Selfoss á laugardaginn, stutt núna á milli leikja. Við munum mæta klárir þar að taka tvö stig eins og alltaf.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira