Innlent

Heilsugæslan hættir að bjóða upp á hraðpróf

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Fyrir mánuði var ákveðið að hætta nær alfarið að notast við PCR-próf en nú er breyting á.
Fyrir mánuði var ákveðið að hætta nær alfarið að notast við PCR-próf en nú er breyting á. Vísir/Vilhelm

Ákveðið hefur verið að gera breytingar á sýnatökum vegna Covid-19 hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en frá og með föstudeginum 1. apríl verður einungis boðið upp á PCR-sýnatökur á Suðurlandsbraut. Með breytingunni verður aðeins hægt að fara í hraðpróf hjá einkaaðilum gegn gjaldi. 

Dregið var verulega úr notkun PCR-prófa fyrir rúmum mánuði vegna mikils álags við greiningu og voru þá hraðgreiningarpróf notuð í auknum mæli. Fólk sem greindist með Covid þurfti ekki að fá niðurstöðu úr hraðprófi staðfesta með PCR-prófi.

Undanfarinn mánuð hefur notkun á PCR-prófum verið bundin við ábendingar lækna og þá sem eru með alvarleg einkenni eða alvarlega undirliggjandi sjúkdóma. Nú hefur dregið verulega úr fjölda þeirra sem greinast daglega með Covid og ætti álagið þar af leiðandi að vera minna við greiningu.

Þeir sem þurfa að fara í PCR-sýnatöku vegna ferðalaga geta bókað sýnatöku á vegnum travel.covid.is en sýnatakan og vottorðið kosta sjö þúsund krónur. Þeir sem eru með einkenni Covid-19 geta áfram bókað PCR-sýnatöku í gegnum Heilsuveru og ekki þarf að greiða fyrir þá þjónustu.

Að því er kemur fram á vef Heilsugæslunnar verður áfram hægt að bóka hraðpróf vegna ferðalaga hjá einkaaðilum en reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna sýnatöku til greiningar á Covid-19, sem gerði einkafyrirtækjum kleift að bjóða upp á endurgjaldslaus hraðpróf, rennur út um mánaðarmótin.

Gert er ráð fyrir að einkaaðilar haldi áfram að bjóða upp á sýnatöku en að notendur verði rukkaðir fyrir þá þjónustu líkt og fyrir 16. september 2021 þegar reglugerðin tók fyrst gildi.


Tengdar fréttir

Hætta nær alfarið notkun PCR-prófa

Ekki verður lengur í boði fyrir fólk með einkenni Covid-sýkingar að panta PCR-sýnatöku. Vegna mikils álags við greiningu verður notkun PCR-prófa nær alfarið hætt  og hraðgreiningarpróf einungis í boði fyrir almenning. Fólk sem greinist með Covid-19 er ekki lengur skylt að fara í einangrun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×