Enski boltinn

Chelsea má selja miða en deildin útdeilir ágóðanum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Chelsea má selja miða á ákveðna leiki félagsins á ný.
Chelsea má selja miða á ákveðna leiki félagsins á ný. James Gill/Getty Images

Enska úrvalsdeildarliðið Chelsea má á nýjan leik selja miða á útileiki félagsins, bikarleiki og leiki kvennaliðsins.

Félagið hefur ekki mátt selja miða á leiki liðsins síðan eigur Romans Abramovich, eiganda Chelsea, voru frystar í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Samkvæmt þessum nýju reglum sem gera félaginu kleift að selja miða á ákveðna leiki liðsins mun ágóðinn af miðasölunni renna til ensku úrvalsdeildarinnar og þaðan verður honum útdeilt til viðeigandi aðila.

Þessar reglur þýða einnig að Chelsea mun geta selt miða á heimaleik liðsins gegn Real Madrid í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu sem fram fer þann 6. apríl. Þá mun félagið einnig geta selt miða á undanúrslitaleik liðsins gegn Crystal Palace í FA-bikarnum helgina 16. og 17. apríl.

Stuðningsmenn gestaliða munu geta keypt miða á leiki í ensku úrvalsdeildinni á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea, en ágóðinn af þeim miðasölum mun renna til ensku úrvalsdeildarinnar.

Þá munu stuðningsmenn Chelsea geta keypt miða á útileiki liðsins í ensku úrvalsdeildinni, en ágóðinn af þeim miðasölum mun renna til þess liðs sem tekur á móti Chelsea hverju sinni.

Ágóðinn af miðasölu á bikarleiki, svo sem leiki Chelsea í Meistaradeildinni og FA-bikarnum, mun renna til ensku úrvalsdeildarinnar og þaðan verður honum útdeilt til viðeigandi mótshaldara eða mótherja Chelsea.

Forráðamenn Chelsea hafa hins vegar óskað eftir því að allur ágóði af miðasölu sem Chelsea hefði undir venjulegum kringumstæðum fengið muni renna til fórnarlamba stríðsins í Úkraínu. Enska úrvalsdeildin hefur sagt að búast megi við tilkynningu varðandi góðgerðarmálefni þegar búið er að ræða við forráðamenn félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×