Fótbolti

Juventus tilbúið að samþykkja launakröfur Salahs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.
Mohamed Salah er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. getty/Rob Newell

Juventus ætlar að gera það sem Liverpool virðist ekki vera tilbúið að gera, að samþykkja launakröfur Mohameds Salah.

Samningur Egyptans við Liverpool rennur út eftir næsta tímabil. Viðræður hans og Liverpool hafa litlu skilað og hann hefur ekki enn skrifað undir nýjan samning við félagið.

Samkvæmt Gazzetta dello Sport ætlar Juventus að nýta tækifærið og samþykkja launakröfur Salahs. Því hefur verið fleygt fram að hann vilji fá fimm hundruð þúsund pund í vikulaun.

Salah þekkir vel til á Ítalíu en hann lék áður með Fiorentina og Roma. Á tveimur og hálfu tímabili á Ítalíu skoraði hann 34 mörk í 53 leikjum.

Paulo Dybala yfirgefur Juventus í sumar og þá ætlar félagið að reyna að losa sig við Aaron Ramsey. Þeir eru tveir af launahæstu leikmönnum Juventus og brotthvarf þeirra ætti að auka líkurnar á að félagið geti fengið Salah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×