Erlent

Aftur til fortíðar? Skortur og raðir í Rússlandi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúar í Sankti Pétursborg bíða í röð eftir því að geta keypt dósamat og nauðsynjar þegar rúblan féll árið 1998.
Íbúar í Sankti Pétursborg bíða í röð eftir því að geta keypt dósamat og nauðsynjar þegar rúblan féll árið 1998. epa/Anatoly Maltsev

Refsiaðgerðir bandamanna gegn Rússum eru farnar að bitna á almennum borgurum, sem þurfa nú að greiða töluvert meira fyrir innfluttan varning en áður, ekki síst vegna gengislækkunar rúblunnar.

Langar raðir hafa myndast eftir sykri og bókhveiti en stjórnvöld í Rússlandi segja eftirspurnina tilbúning og nóg sé til fyrir alla. 

Það sem veldur meiri áhyggjum er skortur á lyfjum en fregnir herma að allt að 80 lyf séu að verða af skornum skammti í lyfjaverslunum, þar á meðal insúlínlyf og bólgueyðandi lyf fyrir börn. 

Guardian hefur eftir Elinu Ribakovu, yfirhagfræðingi hjá Institute of International Finance, að verðbólga í Rússlandi muni fara upp í allt að 20 prósent og að fyrir rússneskan almenning þýði það aðeins eitt; fátækt. 

„Fátækt og örvæntingu,“ segir hún.

Ribakova segist telja að ástandið sé smám saman að verða „sovéskt“ og að stjórnvöld séu líkleg til að einangra landið frekar.

„Ég sé þetta ekki sem tímabundið áfall og svo höldum við áfram í átt að frjálslyndu lýðræði og alþjóðasamvinnu, ekki nema að það verði breytingar á stjórninni,“ segir hún.

Þúsundir Rússa hafa misst vinnuna vegna erlendra fyrirtækja sem hafa yfirgefið Rússland eða hætt starfsemi í bili. Þá hafa innlendar verksmiðjur og fyrirtæki einnig verið að draga saman seglin.

Stjórnendur Sheremetyevo, stærsta flugvallar landsins, tilkynntu á mánudag að fimmtungur starfsmanna yrði sendur í tímabundið leyfi. 

Maria Shagina, sérfræðingur hjá Institute of International Affairs í Finnlandi og Geneva International Sanctions Network, segir rússnesk stjórnvöld hafa fórnað efnahagslegum vexti fyrir stríðstíma-hagkerfi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×