Fótbolti

Stuðningsmenn köstuðu bjór í aðstoðardómarann og leikurinn flautaður af

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aðstoðardómarinn rís á fætur eftir að hafa fengið fljúgandi bjór í sig.
Aðstoðardómarinn rís á fætur eftir að hafa fengið fljúgandi bjór í sig. Bernd Thissen/picture alliance via Getty Images

Leikur Bochum og Borussia Mönchengladbach í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta var flautaður snemma af eftir að áhorfandi kastaði bjór í aðstoðardómara leiksins.

Gestirnir í Mönchengladbach höfðu 2-0 forystu eftir mörk frá Alassane Plea og Breel Embolo, en þegar rétt tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka var bjór kastað úr stúkunni sem hafnaði í aðstoðardómara leiksins, Christian Gittelmannn.

Bochum baðst afsökunar á atvikinu á Twitter-síðu sinni og kallaði þetta „heimskulegan gjörning frá fíflalegum aðdáanda.“

Leikmenn Bochum voru heldur ekki ánægðir með stuðningsmenn sína. Leikmenn létu stuðningsmenn heyra það eftir að Gittelmannn var staðinn á fætur á ný, enda var þetta fyrsti heimaleikur félagsins þar sem máttu vera fleiri en 20 þúsund áhorfendur á vellinum eftir að slakað var á sóttvarnarreglum í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×