Enski boltinn

Paul Scholes: Ef Simeone væri stjóri Man. Utd þá hefði United farið áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson og Paul Scholes með ellefta úrvalsdeildartitilinn sem þeir unnu saman.
Sir Alex Ferguson og Paul Scholes með ellefta úrvalsdeildartitilinn sem þeir unnu saman. Getty/John Peters

Paul Scholes, margfaldur meistari með Manchester United, skellti skuldinni á knattspyrnustjórann Ralf Rangnick eftir að United-liðið datt út úr Meistaradeildinni á Old Trafford í gærkvöldi.

„Ef Diego Simeone væri að stýra liði Manchester United þá hefði United komist áfram úr þessu einvígi,“ sagði Paul Scholes í útsendingu BT Sport.

„Hvernig Ralf Rangnick var valinn sem knattspyrnustjóri þessa klúbbs, það veit ég ekki,“ sagði Scholes. Hann talaði um það fyrir leikinn að hann vildi fá Antonio Conte eða Thomas Tuchel.

„Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þetta lið að fá almennilegan stjóra. Það er fullt af hæfileikum í þessu liði,“ sagði Scholes.

„Það fyrsta sem félagið þarf á að halda ætli það að komast eitthvað nálægt því að vinna deildina aftur er að fá almennilegan stjóra sem vinnur fyrir þetta lið,“ sagði Scholes.

Paul Scholes spilaði allan sinn feril með Manchester United og alltaf undir stjórn Sir Alex Ferguson. Scholes vann ensku deildina ellefu sinnum, enska bikarinn þrisvar og Meistaradeildina tvisvar. Alls spilaði hann 499 leiki fyrir félagið í ensku úrvalsdeildinni og alls 718 leiki í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×