Enski boltinn

De Gea: Manchester United langt frá því að vinna titla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David de Gea hefur nú spilað fimm tímabil í röð með Manchester United án þess að vinna titil.
David de Gea hefur nú spilað fimm tímabil í röð með Manchester United án þess að vinna titil. Getty/ Simon Stacpoole

David de Gea og félagar í Manchester United duttu út úr Meistaradeildinni á heimavelli sínum í gærkvöldi. Spænski markvörðurinn segir liðið vera langt frá því að geta keppt um titlana í ensku úrvalsdeildinni og í Meistaradeildinni. Að hans mati er þetta enn eitt „slæma árið“.

Atletico Madrid vann 1-0 sigur á Old Trafford í seinni leiknum eftir að liðin gerðu 1-1 jafntefli á Spáni. Atletico er þar með komið inn í átta liða úrslit keppninnar.

Þetta var síðasti möguleiki Manchester United á að vinna titil á þessu tímabili og þar með er ljóst að biðin lengist úr fimm árum í sex eftir að koma með bikar í rauða hluta Manchester-borgar.

„Það er erfitt að lýsa því með orðum hvernig mér líður eða hvernig okkur líður. Þetta er önnur erfið stund fyrir okkur og þetta eru orðin alltof mörg ár í röð án titils,“ sagði David de Gea.

„Ég held að við þurfum að hafa eitt á hreinu. Við viljum ná árangri og berjast um titlana en ekki bara keppa um að vera með þeirra fjögurra efstu. Til þess þá þurfum við svo miklu meira frá öllum því þessi klúbbur er alltof stór til að vera þar sem hann er núna,“ sagði De Gea.

„Við erum langt frá því að keppa um enska meistaratitilinn eða sigur í Meistaradeildinni. Við þurfum svo miklu meira frá öllum,“ sagði De Gea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×