Íslenski boltinn

Ingvar vítabani heldur áfram að koma Víkingi nær titlum: Sjáðu atvikin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ingvar Jónsson varði vítaspyrnu Ægis Jónassonar í undanúrslitaleik Lengjubikarsins í kvöld.
Ingvar Jónsson varði vítaspyrnu Ægis Jónassonar í undanúrslitaleik Lengjubikarsins í kvöld. Stöð 2 Sport

Víkingur og KR áttust við í undanúrslitum Lengjubikars karla í fótbolta í kvöld. Íslandsmeistarar Víkings höfðu betur 1-0, en KR-ingar fengu gullið tækifæri til að jafna leikinn um miðjan síðari hálfleik.

Pablo Punyed kom Víkingum yfir á 52. mínútu þegar hann batt endahnútinn á vel útfærða skyndisókn, með smá heppni í bland.

Tíu mínútum síðar fengu KR-ingar vítaspyrnu eftir að Kyle McLagan handlék knöttinn innan vítateigs. Ægir Jarl Jónasson fór á punktinn fyrir KR-inga, en Ingvar Jónsson sá við honum. Ægir tók frákastið sjálfur og skallaði að marki, en aftur sá Ingvar við honum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ingvar ver víti frá KR-ingum á ögurstundu, en í leik liðanna á lokametrum Íslandsmótsins síðasta sumar varði hann víti gegn KR í uppbótartíma og Víkingar sátu því á toppi deildarinnar fyrir lokaumferðina.

Mark Pablos Punyed og vörslur Ingvars má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×