Enski boltinn

Bruno laus við veiruna og verður með á móti Atletico í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes verður væntanlega í byrjunarliði Manchester United í kvöld en í að minnsta í leikmannahópnum.
Bruno Fernandes verður væntanlega í byrjunarliði Manchester United í kvöld en í að minnsta í leikmannahópnum. EPA-EFE/Peter Powell

Manchester United endurheimtir Bruno Fernandes fyrir leikinn mikilvæga á móti Atletico Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

Fernandes missti af leik United um helgina þar sem landi hans Cristiano Ronaldo skoraði þrennu í 3-2 sigri á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni.

„Hann fór í próf í gær [Sunnudag] og það kom út neikvætt. Það er ástæðan fyrir því að hann mátti æfa með okkur í dag,“ sagði Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, á blaðamannafundi fyrir leikinn.

Leikur Manchester United og Atletico Madrid á Old Trafford hefst klukkan 20.00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum á Spáni.

Rangnick fagnar því að vera með alla sína leikmenn klára í verkefni kvöldsins.

„Eins og staðan er núna þá eru allir leikmenn klárir. Það er smá spurningarmerki í kringum Luke Shaw. Hann æfði í gær og í dag en við þurfum að bíða og sjá. Allir aðrir eru að æfa,“ sagði Rangnick.

Manchester United spilar leikinn aðeins 72 klukkutímum eftir leikinn á móti Tottenham.

Hinn 37 ára gamli Cristiano Ronaldo fór þá á kostum en Rangnick hefur ekki áhyggjur af því að Ronaldo verði orkulítill eða þreyttur í kvöld.

„Ég hef ekki áhyggjur af því að hann nái ekki endurheimt. Hann hefur alltaf verið maður sem hugsar mjög vel um sig og líkamann sinn. Hann veit nákvæmlega hvað hann þarf að gera,“ sagði Rangnick.

„Það er mögulegt að það komi nýir menn inn í byrjunarliðið en það er ekki ástæða til að breyta mörgum leikstöðum. Það er gott að allir séu í boði og vissulega betra en ef það væri fimm eða sex leikmenn frá keppni,“ sagði Rangnick.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×