Körfubolti

Yfirgaf CSKA Moskvu á föstudaginn | Gæti leikið sinn fyrsta leik í NBA í nótt

Atli Arason skrifar
Gabriel "Iffe" Lundberg í leik með CSKA.
Gabriel "Iffe" Lundberg í leik með CSKA. Getty Images

Gabriel Lundberg verður fyrsti leikmaðurinn með danskt vegabréf til að spila í NBA deildinni. Lundberg samdi í gær við topplið vesturdeildar, Phoenix Suns. Lundberg lék síðast með CSKA Moskvu í Rússlandi.

Lundberg borgaði sjálfur upp samningin sinn við CSKA á föstudaginn svo hann gæti yfirgefið félagið. Hann er ekki eini leikmaðurinn sem segir upp samningi sínum við liðið en Tornike Shengelia, Marius Grigonis, Johannes Voigtmann og Joel Bolomboy hafa allir hafa allir yfirgefið rússneska liðið í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Lundberg gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir Suns í nótt þegar liðið fær LeBron James og félaga í LA Lakers í heimsókn.

Lars Hansen er eini leikmaðurinn sem hefur fæðst í Danmörku til að spila í NBA. Hansen flutti til Kanada tveggja ára gamall árið 1956 en hann lék um árabil með Seattle Supersonics ásamt kanadíska landsliðinu. Lundberg verður því fyrsti leikmaðurinn með danskt vegabréf til að spila í NBA deildinni en það hefur verið markmið hans í langan tíma. 

„Ég gæti sagt þetta týpíska að ég yrði bara ánægður fyrir hönd þess Dana sem yrði fyrstur til þess að spila í NBA. Ég vil samt auðvitað vera sá fyrsti,“ sagði Lundberg í viðtali við Forbes síðasta sumar.

 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×