Handbolti

Jónatan: Vonandi erum við ekki hættir í svona leikjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jónatan Magnússon vonast til að KA nýti sér meðbyrinn og komi sér í fleiri stórleiki á næstunni.
Jónatan Magnússon vonast til að KA nýti sér meðbyrinn og komi sér í fleiri stórleiki á næstunni. vísir/hulda margrét

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, var svekktur en stoltur eftir úrslitaleik Coca Cola bikars karla þar sem KA-menn töpuðu fyrir Valsmönnum, 36-32.

„Það var mjög lítið sem skildi á milli. Mér fannst þetta vera jafn leikur og mér finnst við spila vel. Við vitum að Valsarar eru frábærir og á góðu skriði en við vorum líka frábærir. Það voru nokkur atriði í sókninni í lokin sem skildu á milli,“ sagði Jónatan í samtali við Vísi eftir leik.

„Vörnin var ekki alveg nógu góð en á sama tíma ætluðum við að keyra á þá. Ég er gríðarlega svekktur að hafa ekki unnið því við gerðum svo sannarlega tilkall til þess. Ég er stoltur af mínum mönnum að hafa lagt ótrúlega mikið í þennan leik. Vonandi er þetta það sem koma skal, að við séum í þessum stóru leikjum.“

Þetta var fyrsti bikarúrslitaleikur KA í átján ár og stuðningsmenn liðsins fjölmenntu á Ásvelli. Jónatan vonar að þetta sé byrjunin á einhverju meira hjá KA-mönnum.

„Það var rosalegur dagur og það hefði verið enn betra ef við hefðum unnið. Þetta er eitthvað til að byggja á og vonandi erum við ekki hættir í svona leikjum,“ sagði Jónatan.

„Það þarf að leggja mikla vinnu í þetta en ég vona að það verði ekki svona langt í næsta alvöru leik. Núna þurfum við bara að koma okkur í þá stöðu að fá fleiri svona leiki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×