Fótbolti

Richards og Morgan gagnrýna yfirlýsingu Abramovich | Truflar úrslitaleikinn, segir Tuchel

Atli Arason skrifar
Micah Richards (Photo by Shaun Botterill - The FA/The FA via Getty Images)
Micah Richards (Photo by Shaun Botterill - The FA/The FA via Getty Images) Getty Images

Micah Richards, fyrrum leikmaður Manchester City og Aston Villa, og fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan hafa gagnrýnt Chelsea og Roman Abramovich

„Við þurfum meira en þetta,“ sagði Micah Richards á Sky Sports í gærkvöldi. „Eftir allar hörmungarnar sem við erum búin að sjá í Úkraínu síðustu daga, að koma með svona yfirlýsingu að hann ætli að láta góðgerðafélag fá knattspyrnufélagið. Mér finnst þetta lélegt“

„Þau hefðu getað gert svo mikið meira en þetta. Það eru svo margar spurningar sem þarf að spyrja. Hvað þýðir þessi yfirlýsing eiginlega? Það er eins og hún sé skrifuð í einhverskonar kóða eða dulmáli. Það er í raun verið að segja okkur að þau vilja ekki segja hvað er í gangi. Það er hent í okkur einhver yfirlýsing og okkur sagt að reyna að ráða í þessa mállýsku og finna út hvað þetta þýðir.“

Piers Morgan hefur einnig gagnrýnt yfirlýsingu Chelsea og Abramovich. Morgan segir orðanotkunina aumkunarverða og setur spurningarmerki að stríðið í Úkraínu hafi ekki verið fordæmt. Morgan gefur til kynna að Abramovich er strengjabrúða Vladimir Putin, rússlandsforseta.

 Thomas Tuchel, þjálfari Chelsea, sagði á fréttamannafundi fyrir úrslitaleik Chelsea gegn Liverpool í deildarbikarnum að fréttir síðustu daga væru truflandi fyrir liðið í undirbúningi sínum fyrir leikinn.

„Það bjóst enginn við þessu. Þetta er allt svo óraunverulegt, þetta skyggir á hugsanir okkar og skyggir á okkar spennustigi fyrir úrslitaleikinn,“ sagði Thomas Tuchel.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×