Fótbolti

Fær frí vegna stríðsins í Úkraínu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andriy Yarmolenko (til hægri) verður ekki með West Ham Untied um helgina. 
Andriy Yarmolenko (til hægri) verður ekki með West Ham Untied um helgina.  Getty Images

Andriy Yarmolenko, leikmaður enska knattspyrnufélagsins West Ham United, verður ekki með liðinu um helgina en Yarmalenko kemur frá Úkraínu og er kominn í nokkurra daga frí vegna stöðunnar þar í landi. Oleksandr Zinchenko, leikmaður Manchester City, verður hins vegar til taks ef þess þarf.

Ljóst að er innrás Rússa í Úkraínu mun hafa mikil áhrif á íþróttalíf álfunnar. Nú þegar hefur úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu verið færður til Parísar en hann átti að fara fram í St. Pétursborg í Rússlandi.

Nú hefur verið staðfest að West Ham United verður án vængmannsins Andriy Yarmolenko um helgina er liðið mætir Wolves. Þetta staðfesti David Moyes, þjálfari Hamranna í dag.

„Við höfum gefið honum nokkurra daga frí þar sem hann er ekki í góðri stöðu á þessu augnabliki. Ég talaði við hann í gær og hann var í uppnámi, eðlilega. Við vonum bara að fjölskylda hans sé örugg.“

Zinchenko verður til taks ef Manchester City þarf á að halda gegn Everton en Pep Guardiola, þjálfari liðsins, skilur vel að innrásin hafi haft mikil áhrif á Zinchenko.

Hann birti mynd á Instagram-síðu sinni í kjölfar innrásarinnar sem var eytt af stjórnendum samfélagsmiðilsins. Zinchenko var einnig meðal mótmælenda í miðborg Manchester og verður að teljast ólíklegt að hann muni spila um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×