Enski boltinn

Jón Daði og félagar nálgast umspilssæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson og félagar hans í Bolton eru á mikilli siglingu í ensku C-deildinni.
Jón Daði Böðvarsson og félagar hans í Bolton eru á mikilli siglingu í ensku C-deildinni. Getty/Dave Howarth

Jón Daði Böðvarsson og félagar hans í Bolton Wanderers eru nú aðeins fjórum stigum frá umsspilssæti um sæti í ensku B-deildinni eftir 3-1 sigur gegn Lincoln City í kvöld.

Jón Daði er búinn að vinna sér inn sæti í byrjunarliði Bolton eftir að hann gekk til liðsins í síðasta mánuði og hann byrjaði í fremstu víglínu í kvöld.

Ekkert var skorað í fyrri hálfleik, en George Johnston kom Bolton yfir á 53. mínútu áður en Cohen Bramall jafnaði metin tæpum stundarfjórðungi síðar.

Það voru svo varamennirnir Kieran Sadlier og Amadou Bakayoko sem tryggðu Bolton 3-1 sigur þegar þeir skoruðu sitthvort markið með stuttu millibili undir lok leiksins.

Jón Daði og félagar hans í Bolton sitja nú í tíunda sæti C-deildarinnar með 51 stig eftir 34 leiki, fjórum stigum á eftir Sunderland sem situr í sjötta og seinasta umspilssætinu um laust sæti í B-deildinni. Lincoln situr hins vegar í 17. sæti með 35 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×