Handbolti

Ómar Ingi markahæstur í Íslendingaslag Evrópudeildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon var markahæsti maður vallarins í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon var markahæsti maður vallarins í kvöld. Getty/Tom Weller

Ómar Ingi Magnússon var markahæsti maður vallarins er Magdeburg heimsótti Kristján Örn Kristjánsson og félaga hans í franska liðinu Aix í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 39-28, en Ómar skoraði sex mörk fyrir Magdeburg.

Gestirnir í Magdeburg byrjuðu af miklum krafti og skoruðu 11 af fyrstu 14 mörkum leiksins. Þeir héldu sjö marka forskoti út fyrri hálfleikinn, en þegar gangið var til búningsherbergja var staðan 20-13, Magdeburg í vil.

Meira jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik þar sem gestirnir héldu Kristjáni og félögum í hæfilegri fjarlægð. Magdeburg skoraði svo seinustu fjögur mörk leiksins og tryggði sér að lokum öruggan 11 marka sigur, 39-28.

Ómar Ingi var sem áður segir markahæsti maður vallarins með sex mörk, en liðsfélagi hand hjá Magdeburg, Gísli Þorgeir Kristjánsson, skoraði þrjú. Kristján Örn Kristjánsson skoraði einnig þrjú mörk fyrir Aix.

Magdeburg trónir sem fyrr á toppi C-riðils með 15 stig eftir átta leiki, en Aix situr hins vegar á botninum með aðeins eitt stig.

Á sama tíma unnu Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG góðan 11 marka sigur á Cocks, 34-23. Viktor Gísli varði fimm skot í marki GOG af þeim 15 sem hann fékk á sig.

GOG trónir á toppi B-riðils með 13 stig eftir átta leiki, en Cocks situr á botninum án stiga.

Að lokum þurfti Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten að sætta sig við naumt eins marks tap gegn Eurofarm Pelister Í D-riðili, 27-26. Eurofarm og Kadetten sitja í öðru og þriðja sæti riðilsins, Eurofarm með tíu stig í öðru sæti og Kadetten tveimur stigum á eftir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×