Enski boltinn

„Loksins skoraðirðu með stóra hausnum þínum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bruno Fernandes fagnar Harry Maguire í leiknum gegn Leeds United.
Bruno Fernandes fagnar Harry Maguire í leiknum gegn Leeds United. getty/Laurence Griffiths

Bruno Fernandes, leikmaður Manchester United, hefur greint frá því hvað hann sagði við samherja sinn, Harry Maguire, eftir að hann skoraði gegn Leeds United í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Maguire kom United á bragðið í leiknum gegn Leeds þegar hann skallaði hornspyrnu Lukes Shaw í netið. Þetta var fyrsta mark Maguires á tímabilinu og fyrsta mark United eftir hornspyrnu í vetur. Það kom í 139. tilraun.

„Eftir að Maguire skoraði sló í höfuðið á honum og sagði: loksins skoraðirðu með stóra hausnum þínum,“ sagði Fernandes.

United vann leikinn gegn Leeds, 2-4, en þetta var annar sigur liðsins í röð. United er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Fernandes finnst United-liðið vera á uppleið.

„Mér finnst liðið hafa spilað vel, jafnvel í leikjunum sem við höfum ekki unnið. En augljóslega eru hlutirnir ekki fullkomnir þegar þú vinnur ekki leiki,“ sagði Fernandes sem skoraði annað mark United í leiknum gegn Leeds og lagði það fjórða upp fyrir Anthony Elanga.

United mætir Atlético Madrid í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld. Leikurinn fer fram á Wanda Metropolatino leikvanginum í Madríd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×