Enski boltinn

Enginn leikmaður hefur snert boltann jafnsjaldan og Lukaku um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku kom bara sjö sinnum við boltann í leiknum á móti Crystal Palace og eitt af þeim skiptum var upphafsspyrna leiksins.
Romelu Lukaku kom bara sjö sinnum við boltann í leiknum á móti Crystal Palace og eitt af þeim skiptum var upphafsspyrna leiksins. AP/Alberto Pezzali

Romelu Lukaku er ein stærsta stjarnan í Chelsea liðinu og ætti að vera mesti markaskorari liðsins. Hann setti hins vegar met í að sjá lítið af boltanum í leik liðsins um helgina.

Lukaku kom aðeins sjö sinnum við boltann í leiknum og ein af þessum snertingum var upphafsspyrna leiksins.

Frá því að menn fóru að taka saman tölfræði yfir snertingar leikmanna við boltann á 2003-04 tímabilinu hefur enginn leikmaður í ensku úrvalsdeildinni komið svo sjaldan við boltann í leik þar sem þeir spila allar níutíu mínúturnar.

Lukaku spilaði fremstur í 4-2-3-1 leikkerfinu og fyrir aftan hann voru þeir Kai Havertz, Christian Pulisic og Hakim Ziyech.

Lukaku komst í fréttirnar fyrr á tímabilinu þar sem hann opinberaði ónægju sína í blaðaviðtali um leikstíl Cheslea liðsins. Thomas Tuchel virtist leysa það mál innanhúss og Lukaku hefur spilað flesta leiki liðsins síðan.

Belgíski markaskorarinn átti síðan mikinn þátt í sigri Chelsea í heimsmeistarakeppni félagsliða með því að skora í bæði undanúrslitaleiknum og úrslitaleiknum.

Hann hefur hins vegar ekki skorað í ensku úrvalsdeildinni á árinu 2022. Þegar liðið spilar jafn varfærin fótbolta og um helgina þá eru ekki miklar líkur að hann fari að raða inn mörkum.

Chelsea náði reyndar að vinna leikinn þökk sé marki Hakim Ziyech á 89. mínútu leiksins.

Lukaku sá aftur á móti svo lítið af boltanum að hann setti nýtt met. Hann skoraði síðast í deildinni á móti Brighton 29. desember síðastliðinn en frá þeim leik hefur hann spilað fjóra deildarleiki í röð án þess að skora og alls 350 af 360 mínútum í boði í þeim.

Hér fyrir neðan má síðan sjá kort af því hvar Lukaku kom við boltann í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×