Enski boltinn

Engir tveir búið til fleiri mörk fyrir hvor annan en Kane og Son

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Heung-Min Son og Harry Kane hafa verið duglegir að leggja upp fyrir hvorn annan.
Heung-Min Son og Harry Kane hafa verið duglegir að leggja upp fyrir hvorn annan. Stu Forster/Getty Images

Harry Kane og Heung-Min Son hafa verið eitt eitraðasta framherjapar ensku úrvalsdeildarinnar á seinustu árum. Félagarnir hafa nú búið til 36 mörk fyrir hvor annan í deildinni.

Heung-Min Son lagði upp eitt af tveimur mörkum Harry Kane í gær í fræknum 3-2 sigri gegn Englandsmeisturum Manchester City á Etihad-leikvanginum. Suður-Kóreumaðurinn lagði einnig upp fyrsta mark Tottenham fyrir nýja manninn Dejan Kulusevski.

Eins og áður segir hafa þeir Kane og Son nú búið til 36 mörk fyrir hvor annan í ensku úrvalsdeildinni. Með því jöfnuðu þeir met Didier Drogba og Frank Lampard sem á sínum tíma bjuggu einnig til 36 mörk fyrir hvor annan í liði Chelsea.

Þetta er ekki fyrsta metið sem þeir félagarnir setja í þessum flokki, en tímabilið 2020-2021 bjuggu þeir til fleiri mörk fyrir hvor annan en nokkurn tíman hefur verið gert á einu tímabili. Þeir gerðu það þann 8. mars 2021 í 4-1 sigri á Crystal Palace þegar Son lagði upp fyrir Kane, en það var fjórtánda markið á því tímabili þar sem annar þeirra lagði upp fyrir hinn.

Tottenham á enn eftir að leika 15 deildarleiki á yfirstandandi tímabili og því andi líklegt að þeir bæti einhverjum mörkum við og hirði þar með metið af Drogba og Lampard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×