Innlent

Starfs­fólki í ein­angrun fjölgar sí­fellt

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sigríður Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala.
Sigríður Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala. vísir/egill

Aldrei hafa fleiri starfsmenn Landspítala verið í einangrun. Stjórn­endur spítalans funda um stöðuna á eftir og segjast munu gera allt til að koma í veg fyrir að kalla þurfi ein­kenna­laust starfs­fólk úr ein­angrun í vinnu.

Síðustu daga hefur starfs­mönnum spítalans í ein­angrun fjölgað ansi ört. Þeir eru nú 432 sem komast ekki í vinnu vegna þess að þeir eru smitaðir af Co­vid.

Á spítalanum starfa um 6.700 manns og því eru um sex til sjö prósent allra starfsmanna í einangrun.

Sig­ríður Gunnars­dóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkrunar á Land­spítala, segir ekki úti­lokað að kalla þurfi ein­kenna­laust starfs­fólk úr ein­angrun til vinnu bráð­lega.

„Það er náttúru­lega allt rætt en eins og við höfum sagt þá erum við náttúru­lega bæði að reyna að forðast það út frá hags­munum okkar sjúk­linga, að við erum að verja þá. Það er náttúru­lega við­kvæmur hópur og við erum að verja þá fyrir smiti. Svo er þetta út frá bara starfs­manna­verndar­sjónar­miðum líka,“ segir Sig­ríður.

Ekki hafi þurft að grípa til þess úr­ræðis enn sem komið er.

„Við höfum ekki gert það nei og erum að vona að til þess komi ekki en við verðum bara að sjá hverju fram vindur í þessu,“ segir Sig­ríður.

Ekki hægt að taka endalausar aukavaktir

Vandinn hefur hingað til verið leystur með auka­vöktum starfs­fólks.

„Það er í raun og veru okkar helsta leið að fara bara fram á við­bótar­vinnu­fram­lag frá okkar fólki, sem er að taka auka­vaktir,“ segir Sig­ríður.

Það fyrir­komu­lag gangi þó ekki enda­laust.

„Fólk er orðið býsna þreytt og gerir þetta nú bara svona af sinni fag­legu skyldu­rækni. En það er vissu­lega mikið álag á fólki og það orðið lang­þreytt þannig það er ekkert eftir­sóknar­vert hjá fólki að bæta við sig vinnu,“ segir Sig­ríður.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar var farið rangt með tölfræði og hlutfall þeirra starfsmanna sem eru í einangrun. Hið rétta er sem segir hér að ofan að það eru tæplega sjö prósent starfsmanna spítalans sem eru frá vinnu og í einangrun. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×