Framherjatríóið sá um mörkin í endurkomusigri Liverpool

Liverpool vann mikilvægan 3-1 sigur gegn Norwich í dag.
Liverpool vann mikilvægan 3-1 sigur gegn Norwich í dag. Gareth Copley/Getty Images

Liverpool vann mikilvægan 3-1 sigur gegn fallbaráttuliði Norwich í ensku úrvalsdeildinni í dag. Gestirnir í Norwich tóku forystuna í síðari hálfleik, en Sadio Mané, Mohamed Salah og Luis Diaz sáu til þess að Liverpool tók stigin þrjú.

Heimamenn í Liverpool voru mun sterkari í upphafi leiks og voru miklu meira með boltann. Ekki tókst þeim þó að koma honum í netið og því var enn markalaust þegar flautað var til hálfleiks.

Það var því heldur gegn gangi leiksins þegar Milot Rashica kom gestunum í Norwich yfir snemma í síðari hálfleik eftir stoðsendingu frá Joshua Sargent.

Heimamenn í Liverpool héldu áfram að sækja eftir markið og þeir uppskáru jöfnunarmark eftir rúmlega klukkutíma leik. Þar var að verki Sadio Mané með hjólhestaspyrnu eftir að Konstantinos Tsimikas hafði skallað fyrirgjöf frá Jordan Henderson fyrir markið.

Aðeins þremur mínútum síðar tóku heimamenn svo forystuna þegar Mohamed Salah setti boltann í netið eftir langa sendingu fram frá markmanninum Allison Becker.

Það var svo nýi maðurinn Luis Diaz sem gulltryggði 3-1 sigur Liverpool með marki á 81. mínútu eftir stoðsendingu frá Jordan Henderson.

Liverpool situr sem fyrr í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, en liðið er með 57 stig eftir 25 leiki, sex stigum á eftir toppliði Manchester City.

Norwich situr hins vegar í næst neðsta sæti deildarinnar með 17 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira